„Við hlökkum til leiksins við Ísland á morgun en vitum að hann verður erfiður,“ sagði Dominik Thalhammer, þjálfari Austurríkis, á fréttamannafundi í Rotterdam í dag fyrir leikinn við Ísland á EM kvenna í knattspyrnu annað kvöld.
Austurríki hefur komið mörgum á óvart með framgöngu sinni á mótinu en liðið vann Sviss, 1:0, og gerði svo 1:1-jafntefli við Frakkland. Því gæti liðið komist í 8-liða úrslit jafnvel þótt það tapaði gegn Íslandi, ef Sviss vinnur ekki sinn leik við Frakkland. Thalhammer einblínir hins vegar á að ná góðum úrslitum gegn Íslandi:
„Við þekkjum íslenska liðið vel og látum ekki úrslitin blekkja okkur. Ísland gæti vel verið komið með nokkur stig á meðan við höfum haft smáheppni með okkur. Þetta verður mjög jafn leikur,“ sagði Thalhammer.
„Þetta er mjög hættuleg staða fyrir okkur. Við vitum að Ísland vill enda þetta mót vel. Liðið er með þúsundir áhorfenda og hefur tapað tveimur leikjum mjög naumlega. Leikirnir gætu þó hafa verið mjög erfiðir fyrir Ísland, þeir kostuðu mikla baráttu, og í því gætu falist möguleikar,“ sagði Thalhammer.
Bæði þjálfarinn og miðjumaðurinn Laura Feiersinger, sem varð þýskur meistari með Dagnýju Brynjarsdóttur árið 2015 þegar þær léku með Bayern München, tóku undir spurningar um að íslenska liðið spilaði af mikilli hörku:
„Ísland spilar svipað og Austurríki, sérstaklega í varnarleiknum. Þær verjast líkt og við með fimm manna varnarlínu. Þær eru mjög fastar fyrir og þess vegna er erfitt að leika gegn þeim. Við þurfum að vera tilbúin að mæta þessari hörku, án þess að tapa einbeitingu,“ sagði Thalhammer.
„Þær spila mjög „líkamlegan“ leik og við erum allar meðvitaðar um það. Við þurfum að berjast á móti, en gæta þess samt að ganga ekki of langt í því,“ sagði Feiersinger. Spurð um Dagnýju, sinn gamla samherja, svaraði hún:
„Ég spilaði með Dagnýju í sex mánuði. Hún er líkamlega mjög sterk. Ég var meidd þegar hún spilaði en ég sá hana alltaf spila og kann mjög vel við hennar stíl. Hún er fljót, spilaði sem framherji hjá Bayern og skoraði mikilvæg mörk á þeim tíma.“