„Eina krafan frá mér var að við myndum spila þokkalegan leik, það var pressan frá mér og við gerðum það ekki. Það var svekkjandi að ná ekki í góðan leik og þetta var einfaldlega lélegur leikur, það er ekki flóknara en það. Við vorum ekki tilbúin í slaginn andlega,“ sagði Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, við mbl.is og fleiri fjölmiðla eftir 3:0 tap gegn Austurríki í síðasta leik íslenska liðsins á Evrópumótinu í Hollandi í kvöld.
Freyr sá ekki mikið jákvætt í leiknum í kvöld, annað en 20 mínútna kafla í byrjun seinni hálfleiks.
Hefðu getað skorað 2-3 mörk í viðbót
„20 mínútna kafli í seinni hálfleik eftir að við náðum að róa þær aðeins í hálfleik, hann var í lagi, annað ekki. Ef við myndum spila tíu leiki myndu níu af þeim vera jafnir, plús eða mínus eitt mark, fram og til baka. Þær hafa eiginleika fram yfir okkur en heilt yfir eru þetta svipuð lið. Við höfðum ekki andlegan styrk til að keppa við þær í dag. Þær voru góðar í teignum, refsuðu og hefðu getað skorað 2-3 mörk í viðbót.“
Freyr viðurkennir að hann hafi verið afar pirraður í hálfleik.
Var brjálaður og í rauninni orðlaus
„Ég var brjálaður og í rauninni orðlaus í hálfleik. Þetta var svo lélegt og ég var svo svekktur með frammistöðuna. Ég tók ekki kast á þær inni, ég reyndi aðeins að berja í þær stálið og reyndi að hjálpa þeim að slaka á. Fyrstu 20 mínúturnar í seinni eru í lagi, þá höldum við þeim niðri og höldum aðeins í boltann.“
Hann hrósaði liðinu fyrir fyrri tvo leikina, en eins og áður hefur komið fram, var hann ekki ánægður með liðið í kvöld.
„Þær hafa kannski ekki brugðist út frá þessum leik, þetta var farið fyrir þennan leik. Mér fannst frammistaðan og hugafarið í fyrstu tveimur leikjunum gott, þær reyndu allt hvað þær gátu þar. Þær eru frábærar fyrirmyndir fyrir allar ungar stúlkur til að sýna þér hvernig þú átt að haga þér sem íþróttamaður og vera stoltur Íslendingur, það vantaði ekkert upp á það. Frammistaðan í dag var hins vegar ekki til útflutnings.“
Freyr viðurkennir að sitt lið hafi einfaldlega ekki verið tilbúið í leikinn í kvöld.
Búið að brjóta þær niður
„Ég sagði í gær að það væri púsluspil fyrir mig til að finna út hverjar væru í lagi andlega, því það voru ekki allar í lagi. Ég var ekki að segja að allir væru klárir. Stelpurnar upplifðu það kannski þannig og töluðu þannig en ég sá að hlutirnir væru ekki í lagi og ég sagði það við þær. Ég var mjög hreinskilinn við þær um þetta og mér fannst stemningin í dag fyrir leik allt önnur en það þarf meira til að komast yfir það þegar það er búið að brjóta þær niður og þú ert að mæta svona góðu liði eins og Austurríki sem hefur allt að keppa.“
Harpa Þorsteinsdóttir, Hólmfríður Magnúsdóttir og Agla María Albertsdóttir voru teknar af velli í síðari hálfleik.
„Harpa var alltaf að fara út af eftir 60-70 mínútur, hún var allt í lagi í þessum leik og gerði eins og hún gat. Tankurinn var búinn hjá Hólmfríði, hún ræður ekki við meira en þetta á þessu stigi, það var fyrirframákveðið að við myndum taka hana út. Agla María var búin á því, hún var ekki lélegri en einhver annar, þó hún hafi ekki verið góð.“
Hann segir að það þurfi að bæta margt í íslenskum fótbolta og það þurfi að byrja á því þegar leikmenn eru ungir.
Veit nákvæmlega hvað ég er að gera
„Ég veit nákvæmlega hvað ég er að gera og ég er eins vel undirbúinn og hægt er, öll vinnan í kringum liðið er í hæsta gæðaflokki ef ég er hreinskilinn. Það eru hins vegar fullt af atriðum sem þarf að laga hjá þessu liði. Sú vinna þarf að fara dýpra, við þurfum að taka tæknilega hlutann mjög alvarlega. Við horfum á fótbolta og við sjáum þetta alveg, sendingar, móttökur, hlaup án bolta, leikskilningur og annað, jafnvel hjá bestu mönnum liðsins. Ég er ekki að skjóta á leikmenn þegar ég segi þetta, en við þurfum að skoða þetta, laga þetta og fara með þetta niður í 7. flokk og gera langtíma plan. Kvennafótboltinn er að vaxa hratt. Ég er búinn að segja þetta í nokkur ár, það þarf að grípa inn í þetta og einhver aðgerð að fara í gang.“
Arnar Daði Arnarsson, fréttamaður fotbolti.net, spurði Frey hvort hann sæi eftir því að hafa breytt um leikkerfi stuttu fyrir mót. Freyr segir svo ekki vera.
„Við vorum næstmarkahæsta liðið í undankeppninni í 4-1-4-1 og við missum okkar bestu leikmenn úr þessum sóknarleik og við þurfum að bregðast við. Heldur þú í alvörunni að það sé leikkerfinu að kenna að við höfum ekki fengið fleiri stig? Það hefur ekkert með leikkerfið að gera,“ svaraði Freyr nokkuð pirraður.
Arnar spurði Frey svo út í frammistöðu ungu leikmannanna.
„Þær standa sig mjög vel, en heldur þú að það taki ekki tíma?
Arnar hélt svo áfram að spyrja. Fannst Frey vera innistæða fyrir bjartsýni fyrir mót og voru væntingarnar ekki of háar?
Það munar einu augnabliki
„Ef við hugsum ekki stórt og reynum ekki að teygja okkur eins langt og við getum, hvað ætlum við þá að vera? Eigum við að fara inn á þriðja stórmótið bara til að vera með? Það sem gerist með háleitri markmiðasetningu er að þú nærð fram því allra besta út úr íþróttamönnum og leikmenn teygja sig langt. Það er hægt að sjá það á því hvernig þjóðin hefur verið í kringum liðið. Það hefur myndað ákveðna stemningu að liðið hugsi stórt og vilji ná langt. Þannig eru íslenskir íþróttamenn og ef þeir eru tilbúnir til að teygja sig eins langt og hægt er, þá ná menn árangri, það er svona stutt á milli í þessu. Það munar einu augnabliki á 86. mínútu í leiknum gegn Frökkum og einum varnarmistökum gegn Sviss, annars værum við að spila úrslitaleik í dag. Það skiptir ekki máli hvaða leikkerfi þú ert að nota, það skiptir máli að láta litlu atriðin telja.“