Þær áttu sigurinn skilið

Glódís Perla segir mótið vera lærdómsríkt.
Glódís Perla segir mótið vera lærdómsríkt.

„Þetta er ótrúlega svekkjandi og ótrúlega erfitt,“ sagði Glódís Perla Viggósdóttir, leikmaður íslenska liðsins í samtali við mbl.is eftir tapið gegn Austurríki. „Ekki það sem við ætluðum okkur, við ætluðum með sigur út úr mótinu og koma heim með hökuna upp og vera stoltar af okkur. Við erum samt sem áður mjög stoltar af okkar frammistöðu, við gáfum allt en það var bara ekki nóg í þetta skipti.“

Ísland endaði í neðsta sæti riðilsins með ekkert stig og eitt mark skorað. Hvað finnst Glódísi um frammistöðu liðsins á mótinu?

„Ég horfi ekki á þetta sem eitthvert „wake up call“ en þetta er algjörlega eitthvað sem við ætlum að laga og læra af. Við munum taka þetta með okkur allan þann lærdóm sem við getum og við ætlum að reyna að læra af þessu núna fyrir undankeppni HM af því að við erum langt frá því að vera með slakt lið. Við erum með mjög sterkt lið og liðsheildin okkar er eitthvað sem sést ekki  í öðrum liðum þannig að við þurfum bara að vinna í ákveðnum hlutum. Þegar það gengur upp hjá okkur og við eigum frábæran leik þá getum við unnið hvern sem er. Við missum ekkert þá trú þótt að þetta mót hafi farið svona.“

Austurríska liðið fer langt á liðsheild og stemningu og treystir ekki á staka einstaklinga, líkt og íslenska liðið.

„Við vorum einmitt að tala um fyrir leikinn að við værum bara að fara að mæta okkur sjálfum. Þær mættu ferskari og betri í þennan leik þannig að þær áttu þennan sigur skilið. Við verðum bara að sætta okkur við það að þetta var bara svona í þetta skiptið, þær voru betri, voru á undan í boltann og við skrefi eftir á í öllu. Þær voru að spila upp á eitthvað, við vorum dottnar út og hausinn ekki alveg á réttum stað. Það er eitthvað sem við þurfum að læra af og má ekki gerast aftur í öðrum leikjum eða næsta móti. Þær voru bara betri í þessum leik og áttu þennan sigur skilið, unnu riðilinn og þetta er bara frábært lið, þær eru góðar í því sem þær eru að gera.“

Hefur Glódís áhyggjur af stöðu landsliðsins eftir mótið?

„Ég hef ekki beint áhyggjur en það er margt sem við getum skoðað og lært af þessu móti. Aðallega þurfum við að geta haldið betur í boltann og skapað okkur fleiri færi. Ef við ætlum að halda áfram í þessu kerfi þá þurfum við að vinna betur í færslunum og öllu öðru. Við þurfum að halda áfram í því sem er okkar, sem er hugarfarið. Við þurfum að geta bætt þessu fótboltalega ofan á svo við verðum svo við verðum í sama gæðaflokki og hin liðin.“

mbl.is

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin