Harpa Þorsteinsdóttir ræddi við RÚV að loknum leik Íslands og Austurríkis en hún var að vonum svekkt með niðurstöðuna. „Undirbúningurinn fyrir þennan leik er búinn að vera erfiður og andlega var þetta örugglega erfiðasti leikurinn sem við höfum spilað saman sem lið.“
„Við erum búnar að gera allt sem við gátum, við erum búnar að leggja okkur allar fram, við erum búnar að stíga algjörlega út fyrir þægindarammann og lögðum allt í sölurnar. Það er ekki hægt að kvarta yfir því, þetta var bara ekki okkar mót.“
Landsliðið talaði um fyrir mótið að það ætlaði sér í átta liða úrslit. Finnst Fanndísi Friðriksdóttur markmiðin hafa verið óraunhæf?
„Nei alls ekki, það vantaði herslumuninn hjá okkur. Markmiðin voru fullkomlega skýr og eðlileg. Við héldum allan tímann áfram og gáfumst ekki upp. Það eru litlir hlutir sem þarf að skerpa á.“
„Maður sest niður og skoðar það jákvæða sem gerðist hérna. Til dæmis að skora mark var virkilega gott en leiðinlegt þegar það skilar ekki sigri. Við ætluðum okkur að klára þetta með sóma en ég veit ekki hvað klikkaði. Við fengum á okkur tiltölulega klaufalegt mark og annað strax á eftir svo það var erfitt að rífa sig upp úr því,“ sagði Fanndís eftir leikinn í kvöld.
Sara Björk Gunnarsdóttir var til viðtals eftir leikinn og sagði liðið hafa gert sitt allra besta.
„Við ætluðum náttúrulega að enda þennan leik á sigri. Það var bókað mál áður en við fórum inn í leikinn en ég veit það ekki. Þetta var smá einbeitingarleysi og þá kom mark, við vissum að þær væru sterkar úr föstum leikatriðum. Hausinn þarf að vera aðeins sterkari og betur stilltur. Þetta er ótrúlega svekkjandi, það féll ekkert með okkur á þessu móti en við getum sagt að við lögðum okkur allar fram í verkefnið og gerðum allt sem við gátum. Ég tala fyrir hönd allra stelpnanna, við reyndum okkar besta og því miður endaði þetta svona,“ sagði landsliðsfyrirliðinn.