Í fjórða þætti af Dætrum Íslands heimsækjum við knattspyrnu- og landsliðskonuna Dagnýju Brynjarsdóttur, leikmann West Ham á Englandi.
Dagný, sem er þrítug, hefur leikið með West Ham í ensku úrvalsdeildinni frá því í janúar 2021 en hún skrifaði á dögunum undir nýjan tveggja ára samning við félagið.
Dagný hélt fyrst út í atvinnumennsku í janúar 2015, þegar hún samdi við stórlið Bayern München í Þýskalandi en hún varð Þýskalandsmeistari með liðinu sama ár.
Árið 2016 gekk hún til liðs við Portland Thorns í bandarísku atvinnumannadeildinni, þar sem hún varð landsmeistari árið 2017 og deildarmeistari árið 2016 en hún lék með liðinu út tímabilið 2019.
Dagný á að baki 101 A-landsleik þar sem hún hefur skorað 34 mörk en hún lék sinn fyrsta landsleik gegn Bandaríkjunum í febrúar 2010, þá 18 ára gömul.
Hún er gift Ómari Páli Sigurbjartssyni og eignuðust þau sitt fyrsta barn saman árið 2018, soninn Brynjar Atla.
Hægt er að horfa á þáttinn um Dagnýju í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.