Það er svo fallegt að vera dóttir

Stelpurnar okkar fagna marki í landsleik. Hvað gerist á EM?
Stelpurnar okkar fagna marki í landsleik. Hvað gerist á EM? mbl.is/Unnur Karen

Ásta B. Gunnlaugsdóttir, fyrrverandi landsliðskona í knattspyrnu, er í hópi þeirra fjölmörgu sem eru á leið á EM á Englandi til að styðja stelpurnar okkur. Getur raunar ekki beðið eftir að leggja í’ann. Og búningurinn er klár í ferðatöskunni. Á honum er ekkert númer en þess í stað þrjú nöfn: Dóttir, mamma og amma.

„Það er svo fallegt að vera dóttir. Það greinir okkur frá öllum öðrum þjóðum og gefur okkur aukastyrk. Og svo er ég auðvitað mamma og amma líka. Búningurinn merkti sig því eiginlega sjálfur,“ segir Ásta.

Hún á von á glæsilegri umgjörð ytra. „Það verður „fan zone“, eins og hjá körlunum, og ég geri fastlega ráð fyrir að íslensku stuðningsmennirnir eigi eftir að koma saman fyrir og eftir leiki og gera sér glaðan dag. Það hefur verið gert af minna tilefni. Þetta verður algjört ævintýri.“

Ásta B. Gunnlaugsdóttir glöð í bragði í áhorfendastúkunni á landsleik.
Ásta B. Gunnlaugsdóttir glöð í bragði í áhorfendastúkunni á landsleik. mbl.is/Eggert Jóhannesson


Ásta á von á sannkallaðri þjóðhátíðarstemningu kringum EM hér heima. „Landsmót hestamanna byrjar núna um helgina og EM tekur svo bara við. Þvílík veisla! Það skiptir líka máli að mótið verði sýnt á RÚV, sérstaklega fyrir eldra fólkið sem hefur kannski ekki aðgang að öðrum stöðvum. Móðir mín, sem komin er yfir áttrætt, fylgist alltaf með en þetta þarf að vera á „réttri“ stöð. Ég á von á virkilega góðu áhorfi sem smitar hratt út í samfélagið, ég tala nú ekki um ef vel gengur.“

Ásta er sjálf á kafi í hestum en verður farin af landi brott áður en Landsmótinu lýkur. „Það hafa margir spurt út í þetta: Ertu að fara áður en Landsmótið klárast?“ segir hún hlæjandi. „En auðvitað tek ég EM fram yfir Landsmót; þótt ég hafi gaman af hestunum þá fara þeir aldrei fram fyrir fótboltann.“

Helmingslíkur á að komast áfram

Önnur fyrrverandi landsliðskona, Olga Færseth, segir riðilinn okkar sterkan og telur helmingslíkur á því að Ísland komist áfram í átta liða úrslitin.

Olga Færseth á fleygiferð með landsliðinu árið 2003.
Olga Færseth á fleygiferð með landsliðinu árið 2003. Kristinn Ingvarsson


„Sennilega þurfum við að vinna tvo leiki; ég er ekki viss um að fjögur stig komi til með að duga. Það verður mjög strembið. Ég óttast að liðið gæti sjálft orðið sinn versti andstæðingur; ef stelpurnar verða yfirspenntar og stressaðar þá gæti þetta átt eftir að verða eltingarleikur en takist þeim að stilla spennustigið rétt þá eru þeim allir vegir færir. Það hefur ekki reynt á þetta í dálítinn tíma gegn allra bestu liðunum og fyrir vikið er svolítið erfitt að segja til um hvað gerist.“

Olgu þykir ánægjulegt að umgjörðin kringum kvennaboltann sé stöðugt að styrkjast og að mörg af stærstu félögum Evrópu hafi verið að taka fé úr karlaboltanum til að efla kvennaboltann. „Það er gaman að sjá hversu vel þetta hefur gengið og nú er svo komið að kvennaboltinn er að verða sjálfbær. Það sjáum við glöggt á ört vaxandi áhorfstölum, bæði á völlunum sjálfum og í sjónvarpi.“

Njótið hverrar mínútu

Ráð Eddu Garðarsdóttur, fyrrverandi landsliðskonu, til stelpnanna okkar er að njóta hverrar mínútu og taka einn dag í einu og vinna í sínum leik og höfðinu á sér. Sjálf lék Edda 103 landsleiki frá 1997 til 2013, þar af þrjá á EM í Finnlandi 2009, fyrsta mótinu sem Ísland tók þátt í.

„Það var auðvitað mikið ævintýri, við vissum ekkert út í hvað við værum að fara. En það er mögnuð upplifun að spila fyrir þjóðina þína á hæsta stigi. Þetta er fjórða EM hjá okkur núna og stelpurnar í liðinu gera sér fulla grein fyrir því hvílík forréttindi þetta eru enda margar búnar að fara áður. Liðið mun mæta auðmjúkt til leiks og ganga beint í verkið. Þetta er eins og jólin.“

Edda Garðarsdóttir lék 103 landsleiki fyrir Ísland.
Edda Garðarsdóttir lék 103 landsleiki fyrir Ísland. Kristinn Ingvarsson


Edda á von á góðri stemningu kringum mótið hér heima. „Ég er auðvitað bara í mínum bergmálshelli, elska þetta og fylgist með öllu, en ég vona að þetta verði ígildi þjóðhátíðar. Stelpurnar eiga það skilið. Þetta eru líka búnir að vera erfiðir tímar, Covid og allt það, og kærkomið að fá svona mót til að rífa upp mannskapinn.“

Nánar er rætt við Ástu, Olgu og Eddu um EM í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin
Loka