„Það er búið að vera draumur hjá manni að komast á stórmót, alveg síðan að maður var krakki, þannig að ég gæti ekki verið betur stemmd ef svo má segja,“ sagði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is á liðshóteli íslenska liðsins í Crewe á Englandi í dag.
Karólína Lea, sem er tvítug, er á sínu fyrsta stórmóti með kvennalandsliðinu en Ísland mætir Belgíu í fyrsta leik sínum á mótinu í D-riðli keppninnar í Manchester á sunnudaginn.
„Það var mikil stemning í Manchester þegar að við lentum á Englandi og loksins fengum við einkaflugvélina sem við erum búnar að bíða ansi lengi eftir. Loksins er maður kominn á stórmót eins og ég sagði áðan og maður er ennþá að átta sig á því að maður sé virkilega kominn hingað ef svo má segja.
Ég er virkilega spennt fyrir sunnudeginum og ég á alveg von á því að fiðringurinn verði mikill þegar maður byrjar að hita upp og gengur inn á völlinn,“ sagði Karólína Lea sem á að baki 19 A-landsleiki fyrir Ísland þar sem hún hefur skorað sjö mörk.
Leikmenn íslenska liðsins hafa verið duglegir að stytta sér stundir á hótelinu í Crewe.
„Auðvitað er alvaran aðeins tekin við núna en samt er alltaf góð stemning í hópnum og allir léttir ef svo má segja. Við erum orðnar góðar í að finna þetta svokallaða jafnvægi og við fórum til dæmis í Singstar í gær.
Við munum fara vel yfir Belgana í kvöld á myndbandsfundi og svo eftir hann dettum við aftur í léttleikann og planið er að horfa á Love Island.
Við erum náttúrulega á Englandi og stemningin fyrir Love Island er því ansi mikil hjá hópnum. Ég held með Gemmu Owen, dóttur hans Michaels Owen og Luca Bish, þau eru mitt fólk í þessari þáttaröð.“
Margir fjölskyldumeðlimir Karólínu Leu verða á leiknum gegn Belgíu á sunnudaginn.
„Ég er fyrst og fremst spennt eins og staðan er í dag en það kemur örugglega upp einhver fiðringur þegar við mætum á akademíuvöllinn í Manchester. Maður reynir hins vegar að halda ró sinni þangað til á sunnudaginn í það minnsta.
Það er mikil spenna innan fjölskyldunnar auðvitað en ég er með mikið jafnaðargerð og það er aðeins mitt hlutverk að halda fjölskyldunni á tánum. Þau verða öll í stúkunni á sunnudaginn og ég er ekki frá því að ég muni fá smá gæsahúð þegar ég sé þau í stúkunni,“ sagði Karólína Lea í samtali við mbl.is.