Liðsfélagar Sveindísar Jane Jónsdóttur hjá Wolfsburg sáu um þriðja mark Þýskalands í sannfærandi 4:0 sigri liðsins á Danmörku á Evrópumóti kvenna í knattspyrnu í kvöld.
Markið kom á 78. mínútu leiksins þegar bakvörðurinn Felicitas Rauch tók aukaspyrnu sem endaði á kollinum á miðjumanninum Lenu Oberforf sem skallaði hann svo á nöfnu sína Lenu Lattwein, sem hafði aðeins verið á vellinum í 17. mínútur. Lattwein tók vel á móti boltanum og þrumaði honum svo í netið.
Það sem er hvað áhugaverðast er að allar þrjár eru á mála hjá Wolfsburg, en landsliðskonan Sveindís Jane Jónsdóttir leikur einnig þar.