„Stemningin í hópnum er mjög góð og við erum virkilega spenntar að hefja leik,“ sagði Berglind Björg Þorvaldsdóttir, framherji íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is fyrir utan liðshótel íslenska liðsins í Crewe á Englandi í dag.
Ísland mætir Belgíu í sínum fyrsta leik í D-riðli lokakeppni Evrópumótsins í Manchester á sunnudaginn en liðið mætti til Englands á miðvikudaginn síðasta.
„Það var virkilega gott að komast aðeins til Þýskalands þar sem við fórum vel yfir það hvað við ætlum að gera á lokamótinu. Þetta var því frábær undirbúningur og það er alveg óhætt að segja að við séum tilbúnar í slaginn.
Það var mikið áreiti í gangi fyrir Evrópumótið í Hollandi fyrir fimm árum síðan en þetta er mun rólegra núna og maður fann það sérstaklega þegar maður kom til Þýskalands. Við erum allar nokkuð slakar en við fórum aðeins yfir Belgana á æfingunni í dag og það er orðið aðeins raunverulegra núna hversu stutt er í fyrsta leik,“ sagði Berglind.
Það bendir allt til þess að Berglind Björg verði í byrjunarliði íslenska liðsins gegn Belgum en hún er að taka þátt í sínu öðru stórmóti með kvennalandsliðinu.
„Við erum allar góðar vinkonur í hópnum og margar af okkur hafa spilað lengi saman sem hjálpar líka mikið til. Við þekkjum hvor aðra út og inn og vonandi náum við að nýta okkur það sem skildi á vellinum sjálfum.
Leikurinn gegn Belgíu leggst ótrúlega vel í mig og við munum fara betur yfir þær í kvöld. Eins og staðan er núna veit ég ekki mikið um þær. Það er mikilvægt að byrja mótið vel og það væri frábært að vinna fyrsta leik, það myndi gefa okkur mjög mikið,“ sagði Berglind Björg í samtali við mbl.is.