„Alvaran er að byrja og ég hef virkilega góða tilfinningu fyrir framhaldinu,“ sagði Hallbera Guðný Gísladóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið á liðshóteli íslenska liðsins í Crewe í gær.
Ísland mætir Belgíu í fyrsta leik sínum í D-riðli lokakeppni Evrópumótsins á akademíuvelli Manchester City í Manchester á morgun en Frakkland og Ítalía leika einnig í sama riðli.
Hallbera, sem er 35 ára gömul, tekur þátt í sínu þriðja stórmóti en hún á að baki 128 A-landsleiki fyrir Ísland og er næst leikjahæst í íslenska hópnum og jafnframt þriðja leikjahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi á eftir Söru Björk Gunnarsdóttur og Katrínu Jónsdóttur.
„Það er alltaf jafn gaman að taka þátt í stórmóti með landsliðinu og ég myndi segja að þetta sé skemmtilegra en í Svíþjóð til dæmis fyrir níu árum síðan því mótið er alltaf að verða stærra og stærra.
Persónulega þá er ég orðin mun fókuseraðri á fótboltann núna en í Svíþjóð til dæmis þar sem maður var nálægt því að vera ákærð fyrir dýraníð. Maður er því búinn að þroskast aðeins á þessum níu árum og farin að forgangsraða hlutunum betur,“ sagði Hallbera í léttum tón.
Hallbera hefur verið lengi í landsliðinu en hún lék sinn fyrsta landsleik árið 2008, þá 21 árs gömul.
„Þú getur ekki alltaf verið í einhverjum fíflalátum en á sama tíma hef ég nú alltaf náð að stilla fókusinn rétt af þegar dómarinn flautar til leiks. Ég finn það samt að ég er orðin mun þroskaðri og rólegri en ég var en það er samt alltaf stutt í grínið hjá manni líka, sem er mikilvægt.
Viðtalið í heild er í Morgunblaðinu í dag