Portúgal og Sviss skildu jöfn, 2:2, í hörkuleik í C-riðli EM 2022 í knattspyrnu kvenna í dag.
Svisslendingar hófu leikinn af gífurlegum krafti og voru komnir yfir eftir rétt rúmlega 80 sekúndna leik.
Coumba Sow skoraði þá með glæsilegu skoti fyrir utan teig sem hafnaði í bláhorninu fjær.
Aðeins þremur mínútum síðar tvöfaldaði Rachel Kiwic forystuna.
Ramona Bachmann átti þá laglega fyrirgjöf úr aukaspyrnu utan af velli sem Kiwic skallaði af krafti upp í þaknetið.
Staðan þar með 2:0 í leikhléi.
Þrátt fyrir afleita byrjun var Portúgal ekkert á því að gefast upp.
Eftir tæplega klukkutíma leik minnkaði Portúgal muninn.
Diana Gomes var þá grimm í vítateignum og vann skallaboltann, Gaelle Thalmann í marki Sviss varði en Gomes náði frákastinu og tróð boltanum í netið.
Sex mínútum síðar jafnaði Portúgal metin.
Tatiana Pinto átti þá glæsilega fyrirgjöf af hægri kantinum sem Jessica Silva stýrði snyrtilega niður í bláhornið fjær.
Fleiri urðu mörkin ekki og sættust liðin því að lokum á sitt hvort stigið.