Landsliðsþjálfarinn Þorsteinn Halldórsson mun ekki klæðast jakkafötum á morgun þegar Ísland mætir Belgíu í sínum fyrsta leik í D-riðli Evrópumóts kvenna í knattspyrnu á akademíuvelli Manchester City í Manchester á morgun.
Þjálfarinn vildi einfaldlega ekki vera í jakkafötum á hliðarlínunni og íþróttavöruframleiðandinn Puma sá því um að útvega Þorsteini fatnað fyrir morgundaginn.
„Já það er komið á hreint,“ sagði Þorsteinn þegar hann var spurður að því á blaðamannafundi íslenska liðsins á akademíuvellinum í Manchester hvort að klæðnaður hans á hliðarlínunni væri klár.
Þorsteinn vildi hins vegar lítið gefa upp um fatnaðinn sem hann mun klæðast sem er eins og áður sagði framleiddur af Puma sem er jafnframt búningaframleiðandi landsliða Íslands.
„Ég verð glæsilegur að vanda,“ sagði Þorsteinn glaður í bragði án þess að gefa of mikið upp.