Stórleikur dagsins á Evrópumóti kvenna í knattspyrnu endaði með 1:1 jafntefli. Þar mættust Evrópumeistarar Hollands og Svíþjóð.
Fyrri hálfleikurinn, sem og allur leikurinn, var heldur daufur og liðin vörðust vel og gáfu fá færi af sér.
Sari van Veenendaal, markvörður Hollands, þurfti að fara út af þegar 22. mínútur voru liðnar af leiknum vegna meiðsla.
Það var svo vængbakvörðurinn Jonna Andersson kom Svíþjóð yfir eftir 36. mínútna leik. Þá var hún galopin á fjærstönginni og fékk boltann frá Kosovare Asllani. Hún sendi síðan boltann í netið, þó með viðkomu í Stefanie van der Gragt, varnarmanni Hollands, sem tæklaði hann í hitt hornið.
Fleiri urður mörkin ekki og Svíar fóru með eins marks forystu inn í hálfleikinn.
Jill Roord jafnaði metin svo fyrir Hollendinga þegar sjö mínútur voru liðnar af síðari hálfleiknum. Þar tæklaði Fridolina Rolfö boltann á hana og hún smellti honum í fjærhornið neðra, glæsileg afgreiðsla og allt jafnt í Sheffiled.
Bæði lið fengu nokkur færi það sem eftir lifði af leiknum en inn vildi boltinn ekki og skildu því liðin jöfn, 1:1.
Leikurinn er liður í C-riðli kvenna en fyrr í dag skildu Portúgal og Sviss jöfn 2:2. Liðin eru í þriðja og fjórða sæti á mörkum skoruðum.
Svíþjóð mætir Sviss næsta miðvikudag klukkan fjögur. Holland mætir Portúgal sama dag klukkan sjö.