„Hann kallaði okkur alltaf stráka á fyrstu æfingunni sinni,“ sagði knattspyrnukonan Fanndís Friðriksdóttir í Dætrum Íslands, EM-hlaðvarpi mbl.is, þegar hún ræddi fyrstu æfingu Þorsteins Halldórssonar með kvennalið Breiðabliks árið 2014.
Þorsteinn tók við þjálfun íslenska kvennalandsliðsins í janúar á síðasta ári en hafði fram að því stýrt Breiðablik í sex tímabil eftir að hafa þjálfað karla- og drengjalið hjá Þrótti úr Reykjavík, KR og Haukum meðal annars.
„Við vorum í reit og ég öskra að boltinn hafi verið farinn út af,“ sagði Fanndís.
„Steini stoppaði æfinguna, öskraði að boltinn hefði ekki verið farinn út af og ég þorði ekki að segja orð eftir það.
Það eina sem ég hugsaði var bara vá hver er þetta eiginlega,“ sagði Fanndís meðal annars í léttum tón.
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.