„Spennustigið er lægra núna,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, á blaðamannafundi íslenska liðsins fyrir fyrsta leikinn gegn Belgíu í D-riðli Evrópuótsins á akademíuvellinum Manchester City í Manchester í dag.
Sara Björk, sem er 31 árs gömul, er leikjahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi með 139 A-landsleiki á bakinu.
Hún er að taka þátt í sínu fjórða stórmóti með kvennalandsliðinu en hún var fyrirliði íslenska liðsins á EM í Hollandi fyrir fimm árum síðan.
„Andrúmsloftið í hópnum núna er ótrúlega rólegt og yfirvegað ef svo má segja,“ sagði Sara Björk.
„Reynslan í hópnum er líka meiri núna en þá. Margir af eldri leikmönnunum í hópnum hafa gert þetta áður og þá eru yngri leikmenn að spila í frábærum deildum með frábærum liðum.
Spennustigið er því einstaklega gott og það er mikið jafnvægi í hópnum,“ sagði Sara Björk.