Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, hefur ekki horft á sjónvarpsþættina sívinsælu Love Island en þetta kom fram á blaðamannafundi íslenska liðsins fyrir fyrsta leikinn gegn Belgíu í D-riðli Evrópumótsins á akademíuvellinum Manchester City í Manchester í dag.
Leikmenn íslenska liðsins hafa verið duglegir að horfa á sjónvarpsþættina síðan þær komu til Englands líkt og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir greindi frá í viðtali við blaðamann í gær.
Þorsteinn var spurður að því hvort hann hefði horft á þættina með stelpunum í dag en hann þvertók fyrir það.
„Ég hef ekkert horft á Love Island,“ sagði Þorsteinn hreinskilinn.
„Steini! Segðu bara satt,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska liðsins, í léttum tón en hún sat einnig fundinn í Manchester.
„Ég fór aðeins í golf í Þýskalandi og svo hefur maður bara verið að dunda sér. Það er alveg nóg að gera og ég er búinn að vera horfa á þessa leiki hérna á EM líka, sem er ágætis tilbreyting frá því að horfa á Belgana,“ bætti Þorsteinn við í léttum tón.