Belgar ætla að gera betur en síðast

Janice Cayman er leikjahæst í sögu belgíska landsliðsins og Sara …
Janice Cayman er leikjahæst í sögu belgíska landsliðsins og Sara Björk Gunnarsdóttir hjá því íslenska en þær voru samherjar hjá Lyon tvö síðustu tímabil. AFP/Franck Fife

Til þess að kom­ast í loka­keppn­ina í ár þurftu Belg­ar að vinna riðil sem inni­hélt meðal ann­ars Sviss en Sviss sló ein­mitt Belg­íu úr leik á fleiri mörk­um skoruðum á úti­velli í um­spili um laust sæti á HM 2019 í Frakklandi.

Gegn hinum mót­herj­um sín­um í riðlin­um, Lit­há­en, Króa­tíu og Rúm­en­íu, skoruðu Belg­ar hell­ing af mörk­um. Tine De Caigny var marka­hæst allra í undan­keppn­inni með 12 mörk og Tessa Wulla­ert skoraði 9 mörk.

Það var vitað fyr­ir fram að bar­átt­an um efsta sæti riðils­ins yrði á milli Belg­íu og Sviss og í leikn­um í Sviss fór allt úr­skeiðis sem gat farið úr­skeiðis hjá Belg­um sem töpuðu 1:2. Síðasti leik­ur riðlakeppn­inn­ar var gegn Sviss á heima­velli og Belg­ía varð að vinna í Leu­ven. De Caigny skoraði tví­veg­is í fyrri hálfleik og fagnaði liðið að end­ingu ör­ugg­um 4:0-sigri. Með sigr­in­um tryggðu Belg­ar sér efsta sæti riðils­ins í fyrsta sinn í sög­unni og jafn­framt sæti í loka­keppn­inni í annað sinn.

Tessa Wullaert er fyrirliði Belga og þeirra markahæsti og hættulegasti …
Tessa Wulla­ert er fyr­irliði Belga og þeirra marka­hæsti og hættu­leg­asti leikmaður. AFP/​Geoff Caddick

Skora mörg mörk

Síðan þá hef­ur liðið tapað fyr­ir bæði Hollandi og Þýskalandi í vináttu­lands­leikj­um en liðið fór hins veg­ar með sig­ur af hólmi í Pinatar-æf­inga­mót­inu á Spáni í fe­brú­ar, þrátt fyr­ir að Tessa Wulla­ert hafi misst af mót­inu vegna meiðsla. Diede Lemey, markvörður liðsins, reynd­ist hetja Belga á mót­inu en báðir leik­ir liðsins í undanúr­slit­un­um og úr­slit­un­um gegn ann­ars veg­ar Wales og svo Rússlandi enduðu í víta­keppni þar sem Lemey reið baggamun­inn.

Það er al­veg ljóst að Belg­ar eru lið sem skor­ar mörg mörk en alls skoruðu þeir 37 mörk í undan­keppn­inni. Þá hef­ur liðið skorað 47 mörk í undan­keppni HM 2023 og það bend­ir allt til þess að liðið fari alla leið í um­spil um sæti á sjálfu heims­meist­ara­mót­inu. Í undan­keppn­inni hef­ur Tessa Wulla­ert farið á kost­um og skorað 15 mörk.

Spila­mennska liðsins gegn Nor­egi olli hins veg­ar mikl­um von­brigðum í undan­keppni HM þar sem Belg­ar töpuðu stórt, 0:4. „Við gáf­um allt í leik­inn gegn liði þar sem all­ir leik­menn liðsins eru 100% at­vinnu­menn. Þarna þurf­um við að bæta okk­ur,“ sagði þjálf­ar­inn Ives Ser­neels í sam­tali við fjöl­miðlamenn eft­ir tapið gegn Nor­egi.

Belg­íska knatt­spyrnu­sam­bandið þarf að stýra kvennaliðum í land­inu úr áhuga­mennsku í at­vinnu­mennsku.

Nicky Evrard hefur verið aðalmarkvörður Belga en hún á 51 …
Nicky Evr­ard hef­ur verið aðal­markvörður Belga en hún á 51 lands­leik að baki og leik­ur með Leu­ven í heimalandi sínu. AFP/​Geoff Caddick

Með í annað sinn

Belg­ar hafa ein­ung­is einu sinni áður verið með í loka­keppni Evr­ópu­móts­ins en það var síðast þegar mótið var haldið árið 2017 í Hollandi.

Þúsund­ir stuðnings­manna fylgdu liðinu yfir landa­mær­in og studdu þétt við bakið á því í Breda gegn Nor­egi og svo gegn Hollandi í Til­burg. Þá fylgd­ist tæp­lega millj­ón manns með báðum leikj­un­um í sjón­varp­inu. Belg­ar töpuðu með minnsta mun gegn Dan­mörku og Hollandi í riðlakeppn­inni árið 2017 en viku síðar mætt­ust Dan­mörk og Hol­land ein­mitt í úr­slita­leikn­um sem seg­ir ým­is­legt um styrk­leika riðils­ins sem Belg­ar voru í. Þrátt fyr­ir töp­in gegn Dan­mörku og Hollandi gerðu Belg­ar sér lítið fyr­ir og unnu óvænt­an 2:0-sig­ur gegn Nor­egi á mót­inu.

Mark­miðið í ár er að gera bet­ur en á síðasta móti. Það er ekk­ert því til fyr­ir­stöðu að Belg­ar endi fyr­ir ofan bæði Ísland og Ítal­íu og kom­ist upp úr riðlin­um. Ef liðið kemst hins veg­ar áfram í átta liða úr­slit þá mæt­ir liðið að öll­um lík­ind­um annaðhvort Hollandi eða Svíþjóð þar sem liðið á ekki mikla mögu­leika fyr­ir­fram.

Dirk Deferme knatt­spyrn­u­sér­fræðing­ur hjá Het Laat­ste Nieuws í Belg­íu skrifaði grein­ina. Hún er hluti af sam­vinnu­verk­efni sex­tán fjöl­miðla frá þátt­tökuþjóðunum sex­tán á EM, und­ir for­ystu The Guar­di­an á Englandi, og birt­ist áður í heild sinni í EM-blaði Morg­un­blaðsins sem kom út síðasta fimmtu­dag.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

Útsláttarkeppnin

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

Útsláttarkeppnin