Dirk Deferme Het Laatste Nieuws
Til þess að komast í lokakeppnina í ár þurftu Belgar að vinna riðil sem innihélt meðal annars Sviss en Sviss sló einmitt Belgíu úr leik á fleiri mörkum skoruðum á útivelli í umspili um laust sæti á HM 2019 í Frakklandi.
Gegn hinum mótherjum sínum í riðlinum, Litháen, Króatíu og Rúmeníu, skoruðu Belgar helling af mörkum. Tine De Caigny var markahæst allra í undankeppninni með 12 mörk og Tessa Wullaert skoraði 9 mörk.
Það var vitað fyrir fram að baráttan um efsta sæti riðilsins yrði á milli Belgíu og Sviss og í leiknum í Sviss fór allt úrskeiðis sem gat farið úrskeiðis hjá Belgum sem töpuðu 1:2. Síðasti leikur riðlakeppninnar var gegn Sviss á heimavelli og Belgía varð að vinna í Leuven. De Caigny skoraði tvívegis í fyrri hálfleik og fagnaði liðið að endingu öruggum 4:0-sigri. Með sigrinum tryggðu Belgar sér efsta sæti riðilsins í fyrsta sinn í sögunni og jafnframt sæti í lokakeppninni í annað sinn.
Síðan þá hefur liðið tapað fyrir bæði Hollandi og Þýskalandi í vináttulandsleikjum en liðið fór hins vegar með sigur af hólmi í Pinatar-æfingamótinu á Spáni í febrúar, þrátt fyrir að Tessa Wullaert hafi misst af mótinu vegna meiðsla. Diede Lemey, markvörður liðsins, reyndist hetja Belga á mótinu en báðir leikir liðsins í undanúrslitunum og úrslitunum gegn annars vegar Wales og svo Rússlandi enduðu í vítakeppni þar sem Lemey reið baggamuninn.
Það er alveg ljóst að Belgar eru lið sem skorar mörg mörk en alls skoruðu þeir 37 mörk í undankeppninni. Þá hefur liðið skorað 47 mörk í undankeppni HM 2023 og það bendir allt til þess að liðið fari alla leið í umspil um sæti á sjálfu heimsmeistaramótinu. Í undankeppninni hefur Tessa Wullaert farið á kostum og skorað 15 mörk.
Spilamennska liðsins gegn Noregi olli hins vegar miklum vonbrigðum í undankeppni HM þar sem Belgar töpuðu stórt, 0:4. „Við gáfum allt í leikinn gegn liði þar sem allir leikmenn liðsins eru 100% atvinnumenn. Þarna þurfum við að bæta okkur,“ sagði þjálfarinn Ives Serneels í samtali við fjölmiðlamenn eftir tapið gegn Noregi.
Belgíska knattspyrnusambandið þarf að stýra kvennaliðum í landinu úr áhugamennsku í atvinnumennsku.
Belgar hafa einungis einu sinni áður verið með í lokakeppni Evrópumótsins en það var síðast þegar mótið var haldið árið 2017 í Hollandi.
Þúsundir stuðningsmanna fylgdu liðinu yfir landamærin og studdu þétt við bakið á því í Breda gegn Noregi og svo gegn Hollandi í Tilburg. Þá fylgdist tæplega milljón manns með báðum leikjunum í sjónvarpinu. Belgar töpuðu með minnsta mun gegn Danmörku og Hollandi í riðlakeppninni árið 2017 en viku síðar mættust Danmörk og Holland einmitt í úrslitaleiknum sem segir ýmislegt um styrkleika riðilsins sem Belgar voru í. Þrátt fyrir töpin gegn Danmörku og Hollandi gerðu Belgar sér lítið fyrir og unnu óvæntan 2:0-sigur gegn Noregi á mótinu.
Markmiðið í ár er að gera betur en á síðasta móti. Það er ekkert því til fyrirstöðu að Belgar endi fyrir ofan bæði Ísland og Ítalíu og komist upp úr riðlinum. Ef liðið kemst hins vegar áfram í átta liða úrslit þá mætir liðið að öllum líkindum annaðhvort Hollandi eða Svíþjóð þar sem liðið á ekki mikla möguleika fyrirfram.
Dirk Deferme knattspyrnusérfræðingur hjá Het Laatste Nieuws í Belgíu skrifaði greinina. Hún er hluti af samvinnuverkefni sextán fjölmiðla frá þátttökuþjóðunum sextán á EM, undir forystu The Guardian á Englandi, og birtist áður í heild sinni í EM-blaði Morgunblaðsins sem kom út síðasta fimmtudag.