„Ég þarf að gera betur,“ sagði markaskorari Íslands Berglind Björg Þorvaldsdóttir í samtali við RÚV eftir 1:1 jafntefli gegn Belgíu í fyrsta leik Íslands á Evrópumóti kvenna í knattspyrnu í Manchester í dag.
Berglind brenndi af vítaspyrnu á 33. mínútu en bætti upp fyrir það á 50. mínútu þegar hún skoraði mark Íslands.
„Þetta var gríðarlega erfiður leikur en mjög fjörugur og það er fúlt af hafa ekki unnið hann. Sóknar sem og varnarleikurinn var mjög góður, við vorum oft að ná að pressa þær hátt uppi og koma okkur í góðar stöður. Við þurfum að fínpússa okkur fyrir næsta leik og nýta færin betur.“
Hvernig var tilfinningin að skora?
„Ég þurfti að bæta fyrir vítaklúðrið en það var mjög gaman að skora. Ég sá hann koma á fjær og sá þetta alveg inni. Það var léttir að skora, „geggjað móment“ að fagna með stuðningsmönnunum þannig þetta var æði.“
Hvað fór úrskeiðis í vítinu?
„Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja, ég þarf bara að gera betur.“
Hvað viljið þið fínpússa?
„Við þurfum ennþá betri gæði fram á við og að ná að klára færin. Við vorum oft að koma okkur í góðar stöður en náðum ekki að nýta þær,“ sagði Berglind að lokum.