Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra eru mættar til Englands til þess að fylgjast með íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu í lokakeppni Evrópumótsins.
Fyrsti leikur Íslands á mótinu er gegn Belgíu í D-riðli keppninnar en leikurinn fer fram á akademíuvelli Engandsmeistara Manchester City í Manchester.
Fjöldi stuðningsmanna íslenska liðsins var samankominn á Fanzone í Piccadilly Gardens í miðborg Manchester í dag og þær Vanda og Katrín létu sig ekki vanta í veisluna.
Þaðan tóku svo stuðningsmenn íslenska liðsins lest að Etihad-vellinum, heimavelli Manchester City, og þaðan var gengið á akademíuvöllinn sem er um fimm mínútna gangur yfir fallega göngubrú sem liggur yfir Ashton New Road.
Eggert Jóhannesson ljósmyndari Morgunblaðsins fangaði stemninguna á leiðinni á keppnisvöllinn og má sjá myndir af því hér fyrir neðan.