Frakkar voru ekki í neinum vandræðum með Ítali í seinni leik dagsins í D-riðli Evrópumóts kvenna í knattspyrnu í Rotherham á England og unnu stórsigur, 5:1.
Þessi lið eru í riðli með Íslandi og Belgíu sem skildu jöfn í Manchester fyrr í dag, 1:1.
Strax á þriðju mínútu fengu Ítalir dauðafæri þegar Barbara Bonansea komst ein gegn Pauline Payraud-Magnin markverði Frakka sem varði glæsilega frá henni.
Á 9. mínútu skoraði Grace Geyoro og kom Frökkum yfir, 1:0.
Frakkar fylgdu þessu vel eftir og á 12. mínútu bætti Marie-Antoinette Katoto við marki, 2:0, eftir fyrirgjöf Sakinu Karchaoui frá vinstri.
Engu munaði að Katoto skoraði aftur á 15. mínútu þegar hún skallaði í stöng ítalska marksins.
Delphine Cascarino skoraði síðan, 3:0, á 38. mínútu með hörkuskoti rétt utan vítateigs.
Varla var liðin mínúta í viðbót þegar staðan var orðin 4:0 en þá slapp Geyoro innfyrir vörnina, lék á markvörðinn og skoraði.
Geyoro fullkomnaði síðan þrennuna á lokamínútu fyrri hálfleiks þegar hún kom Frökkum í 5:0 eftir fyrirgjöf Sandie Toletti frá vinstri.
Ítölsku konurnar gengu gjörsigraðar af velli þegar flautað var til hálfleiks. Þær náðu hinsvegar að rétta sinn hlut með betri frammistöðu í síðari hálfleiknum og á 76. mínútu skoraði varamaðurinn Martina Piemonte, 5:1, eftir sendingu frá Lisu Boattin.
Ítalir voru nærri því að minnka muninn enn frekar á lokamínútunum en Frakkar björguðu þá tvívegis á síðustu stundu.
Á fimmtudag leikur Frakkland við Belgíu og Ísland við Ítalíu.