„Stig er stig,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Íslands, í samtali við RÚV eftir 1:1 jafntefli gegn Belgíu í fyrsta leik íslenska liðsins á Evrópumóti kvenna í knattspyrnu í Manchester í dag.
„Ég held að ég geti sagt að mér fannst liðið spila heilt yfir vel og við gerðum hlutina ágætlega. Við vorum að skapa góða möguleika til að búa til færi. Heilt yfir fannst mér við sterkari.
En stig er stig og það er auðvitað gott að vera komin með stig á töfluna. Við hefðum alltaf viljað þrjú stig í draumaheimi en þetta er bara raunveruleikinn. Mótið heldur áfram, svipað og úrslitakeppni í handbolta, fyrsti leikurinn er ekki úrslitaleikurinn.“
Fannst þér liðið ná að útfæra vel það sem lagt var upp fyrir leikinn?
„Já margt af því gekk eftir, mér fannst Belgarnir eiga í vandræðum á köflum að koma boltanum fram á við. Við náðum að vera nokkuð þétt en svo kom kafli í fyrri hálfleik sem við vorum í smá vandræðum. Heilt yfir var ég sáttur með leikinn að mörgu leyti.
Við fengum aragróa af hornspyrnum og löngum innköstum sem við náðum ekki að nýta. En við skoruðum í kjölfarið af hornspyrnu, gott mark,. Svo fengum gott færi í fyrri hálfleik til að komast yfir en ég er bara sáttur að við tökum eitt stig og áfram gakk.“
Smá stillingar sem þarf að gera fyrir framhaldið?
„Það er bara nýr leikur sem við þurfum að setjast yfir og undirbúa okkur fyrir. Ítalía er gott lið og hefur verið að sýna styrkleika undanfarið í úrslitum gegn sterkum andstæðingum.“
Lið sem þið þekkið betur en Belgía?
„Já við spiluðum tvo leiki við þær fyrir um rúmu ári síðan. Eg tel okkur eiga alveg ágætis möguleika gegn ítalíu. við förum inn í þann leik til að vinna eins og við gerðum í dag,“ sagði Þorsteinn heldur þungur á því eftir leik.