„Spennan er að magnast,“ sögðu Ingibjörg María Guðmundsdóttir og Örn Torfason, foreldrar Guðrúnar Arnardóttur varnarmanns íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við blaðamann á Fanzone íslenska liðsins við Piccadilly Gardens í miðborg Manchester í dag.
Íslenska liðið mætir Belgíu í fyrsta leik sínum í D-riðli Evrópumótsins á akademíuvelli Manchester City klukkan 17 að staðartíma en fjöldi Íslendinga var mættur á Fanzone í dag þar sem hitað var upp fyrir leikinn.
„Sumir tala vitleysu, aðrir tala meiri vitleysu og svo eru aðrir sem bulla bara,“ sagði Örn í léttum tón þegar hann var spurður út í ummæli tengdasonar síns Kára Jónssonar landsliðsmanns í körfubolta um að Örn hefði átt erfitt með svefn í nótt.
„Ég er með ótrúlegan fiðring í maganum og ég veit satt best að segja ekki alveg hvort þetta sé stress í mér eða bara spenna,“ sagði Ingibjörg María.
Alls er von á 30 fjölskyldumeðlimum Guðrúnar á leikinn í kvöld en 18 þeirra eru nú þegar mættir til Manchester á meðan restin er á leið í flugi til borgarinnar í þessum skrifuðu orðum.
„Fótboltafjölskyldan sem stendur á bakvið Guðrúnu, föðurmegin, þau eru bara svona. Það eru allir með og þannig hefur það alltaf verið. Ég held að það séu einhverjir sex hérna úr móðurfjölskyldunni og restin er allt föðurfjölskyldan,“ sagði Ingibjörg María.
„Lífið er fótbolti, þannig er það bara. Ég spái 2:1-sigri íslenska liðsins en ég held að Guðrún skori ekki í dag. Hún skorar hins vegar í næsta leik gegn Ítalíu, ég er sannfærður um það,“ bætti Örn kampakátur við.