„Ég er drullusvekkt að hafa ekki unnið þennan leik,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir 1:1-jafntefli liðsins gegn Belgíu í sínum fyrsta leik í D-riðli Evrópumótins á akademíuvelli Manchester City á Englandi í kvöld.
„Eitt stig er betra en ekki neitt, svona ef við horfum á það jákvæða. Við áttum mjög góða kafla inn á milli og svo komu aðrir kaflar líka þar sem við vorum helst til of stressaðar á boltann, sérstaklega þegar þær jöfnuðu metin.
Við fengum fullt af föstum leikatriðum í þessum leik sem eru einn af okkar helstu styrkleikum. Við áttum bara að gera betur þar og nýta þau miklu betur. Þetta var frekar mikið stönginn út og ég er svekkt að hafa ekki fengið þrjú stig,“ sagði Sara Björk.
Næsti leikur íslenska liðsins er gegn Ítalíu í Manchester á fimmtudaginn kemur.
„Þessi úrslit eru alls enginn heimsendir en við þurfum að vinna næsta leik ef við ætlum að eiga einhvern möguleika á því að fara upp úr riðlinum. Núna þurfum við að leggja svekkelsið til hliðar og einbeita okkur að næsta leik.“
Sonur Söru, Ragnar Frank Árnason, var á leiknum í kvöld ásamt fjölskyldu Söru.
„Það var geðveikt að fá strákinn minn í fangið strax eftir leik og tilfinningin var í raun mögnuð. Það var líka gott að komast aðeins í mömmugírinn strax eftir leik.
Ég er líka ótrúlega þakklát fyrir stuðninginn. Ég heyrði í áhorfendum allan tímann sem var frábært,“ sagði Sara Björk í samtali við mbl.is.