Fjöldi Íslendinga var saman kominn á Fanzone í Piccadilly Gardens í miðborg Manchester á Englandi í dag.
Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu mætir Belgíu í fyrsta leik sínum í D-riðli Evrópumóts kvenna á akademíuvelli Manchester City í dag klukkan 17 að staðartíma.
Íslendingar voru í miklum meirihluta á stuðningsmannasvæðinu sem var fyrir bæði Íslendinga og Belga.
Plötusnúðurinn Dóra Júlía Agnarsdóttir sá um að hita upp mannskapinn ásamt tónlistarkonunum Guðlaugu Sóleyju Höskuldsdóttur og Sólrúnu Mjöll Kjartansdóttur.
Þá voru meðlimir Tólfunnar, stuðningsmannasveitar íslensku landsliðanna, einnig á svæðinu og tóku þeir að sjálfsögðu víkingaklappið með viðstöddum, við frábærar undirtektir.
Myndir sem Eggert Jóhannesson ljósmyndari Morgunblaðsins tók af stemningunni í Manchester í dag má sjá hér fyrir neðan.