„Við erum mjög meðvitaðar um ábyrgðina sem hvílir á okkar herðum,“ sagði plötusnúðurinn Dóra Júlía Agnarsdóttir í samtali við mbl.is í Manchester í dag.
Dóra Júlía sá um að koma stuðningsmönnum íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu í gírinn fyrir fyrsta leik liðsins gegn Belgíu í D-riðli Evrópumótsins á Fanzone í Piccadilly Gardens í miðborg Manchester í dag.
„Við erum ógeðslega glaðar, í virkilega góðu skapi og vonandi smitar það út frá sér í stuðningsmenn íslenska liðsins,“ sagði söngkonan Guðlaug Sóley Höskuldsdóttir.
„Við vorum einmitt að ræða það okkar á milli hversu ótrúlega mikill heiður það sé fyrir okkur að vera hérna og fá þetta mikilvæga hlutverk,“ sagði Dóra Júlía.
„Ég er ekki mikill fótboltaáhugamaður þannig að ég er extra spennt að fara á leikinn og fá að upplifa þetta,“ bætti Sólrún Mjöll Kjartansdóttir við.