Stöngin út í fyrsta leik

Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði mark íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu þegar liðið mætti Belgíu í fyrsta leik sínum í D-riðli Evrópumótsins á akademíuvelli Manchester City í Manchester á Englandi í dag.

Belgar fengu hættulegri marktækifæri til að byrja með og Janice Cayman og Tessa Wullaert áttu báðar skot að marki íslenska liðsins á fyrstu tíu mínútum leiksins sem Sandra Sigurðardóttir varði vel í blði skiptin.

Á 26. vann íslenska liðið boltann ofarlega á vellinum eftir frábæra pressu Berglindar Bjargar Þorvaldsdóttur og Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur.

Berglind renndi boltanum svo í gegn á Sveindísi Jane Jónsdóttur sem var sloppin ein í gegn en Sveindís hitti boltann ekki, ein gegn Nicky Evrard í marki Belga, og færið rann út í sandinn.

Fjórum mínútum síðar fékk íslenska liðið vítaspyrnu eftir að skot Sveindísar hafnaði í hönd vinstri bakvarðar Belgíu.

Tess Olafsson, dómari leiksins, studdist við VAR-myndbandsdómgæsluna áður en hún dæmdi vítaspyrnu og Berglind Björg steig á punktinn.

Evrard í marki Belga skutlaði sér hins vegar í rétt horn og varði spyrnu Berglindar og staðan því áfram markalaus.

Besta færi Belga í fyrri hálfleik kom á 45. mínútu þegar Elena Dhont fékk frítt skot í vítateig íslenska liðsins eftir laglegt samspil en hún hitti boltann illa og skotið fór framhjá.

Glódís Perla Viggósdóttir átti síðustu marktilraun síðari hálfleiks þegar hún reyndi að skrúfa boltann upp í samskeytin, rétt utan teigs, eftir langt innkast Sveindísar en skotið fór rétt yfir markið og staðan því markalaus í hálfleik.

Íslenska liðið byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og Sveindís Jane prjónaði sig í gegnum varnarmenn Belga strax á upphafsmínútunum. Hún átti fast skot með vinstri fæti sem Evrard í marki Belga varði mjög vel.

Berglind Björg kom svo íslenska liðinu yfir á 50. mínútu þegar Karólína Lea átti frábæra sendingu frá vinstri kantinum.

Boltinn barst á fjærstöngina þar sem Berglind Björg fékk frían skalla og hún stangaði boltann í netið af stuttu færi og staðan orðin 1:0.

Tíu mínútum síðar var Elena Dhont við það að sleppa í gegnum vörn íslenska liðsins en Sandra kom út úr markinu, lokaði vel á hana, og hirti svo boltann af henni.

Á 64. mínútu fengu Belgar svo dæma vítaspyrnu þegar Elena Dhont fór niður í vítateig íslenska liðsins eftir samstuð við varnarmenn Íslands. Justine Vanhaevermaet steig á punktinn og hún gerði engin mistök, sendi Söndru í vitlaust horn og staðan orðin 1:1.

Dagný Brynjasdóttir fékk gott tækifæri til þess að komast Íslandi yfir á nýjan leik á 71. mínútu eftir hornspyrnu frá vinstri en Evrard í marki Belga varði meistaralega frá henni.

Tessa Wullaert átti lúmskt skot á 79. mínútu, rétt utan teigs, þegar hún reyndi að smyrja boltann upp í samskeytin en Sandra var snögg til og varði mjög vel frá henni í hornspyrnu.

Jafnræði var með liðunum á lokamínútunum og fengu bæði lið tækifæri til þess að koma boltanum í netið og svekkjandi jafntefli því niðurstaðan.

Ísland er með 1 stig í riðlinum eftir einn leik, líkt og Belgía, en síðar í dag mætast Frakkland og Ítalía í Rotherham.

Belgía 1:1 Ísland opna loka
90. mín. Ísland fær hornspyrnu Aukaspyrna dæmd.
mbl.is

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin

ENGIR LEIKIR Á SKRÁ Í ÚTSLÁTTARKEPPNI

ÚRSLIT SÍÐUSTU LEIKJA

Spánn
14. JÚLÍ
2 : 1
England
Holland
10. JÚLÍ
1 : 2
England
Útsláttarkeppnin