„Þetta er súrt,“ sagði Guðrún Arnardóttir, varnarmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, eftir 1:1-jafntefli íslenska liðsins gegn Belgíu í sínum fyrsta leik í D-riðli Evrópumótsins á akademíuvelli Manchester City í Manchester á Englandi í dag.
„Mér fannst við betra liðið í dag og varnarleikurinn hjá okkur var góður heilt yfir. Við héldum betur í boltann í seinni hálfleik og mér fannst við í raun gera nóg til þess að vinna leikinn. Tilfinningin er aðeins þannig eins og við höfum tapað leiknum. Þess vegna svíða úrslitin meira en þau ættu að gera,“ sagði Guðrún.
Guðrún, sem er 26 ára gömul, var að leika sinn fyrsta leik á stórmóti með landsliðinu.
„Auðvitað er ýmislegt sem ég hefði viljað gera betur en það er oftast þannig. Við tökum kvöldið í kvöld í að svekkja okkur á þessu og svo tekur bara við undirbúningur fyrir næsta leik,“ bætti Guðrún við.