„Tilfinningarnar eru blendnar,“ sagði Hallbera Guðný Gísladóttir, bakvörður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, eftir 1:1-jafntefli íslenska liðsins gegn Belgíu í sínum fyrsta leik í D-riðli Evrópumótsins á akademíuvelli Manchester City í Manchester á Englandi í dag.
„Við erum komnar með stig, sem maður verður að vera sáttur við, en ég held að allir sem hafi horft á þennan leik átti sig á því að við áttum að vinna þennan leik. Fyrsta tilfinning, strax eftir leik, var á þann veg að við hefðum tapað leiknum en það þýðir ekki að fara í fýlu og það er ýmislegt jákvætt sem við getum tekið með okkur úr leiknum.
Þetta var virkilega heilsteypt og þroskuð frammistaða og þær sköpuðu sér nánast engin opin marktækifæri. Það þýðir hins vegar ekki að dvelja of lengi við þetta og núna er það bara næsti leikur,“ sagði Hallbera.
Íslenska liðið var sterkari aðilinn í leiknum og skapaði sér mun hættulegri marktækifæri.
„Mér leið allan tímann eins og við værum að fara vinna leikinn. Berglind skoraði frábært mark og eftir það hélt ég að við myndum klára þetta. Þær fá svo vafasamt víti og frá mínum bæjardyrum séð þá var þetta dýfa. Það er auðvitað myndbandsdómgæsla á staðnum og allt það og við þurfum að treysta henni en mér fannst þetta mjög ódýrt.“
Næsti leikur liðsins er gegn Ítalíu á fimmtudaginn þar sem íslenska liðið þarf á sigri að halda.
„Núna erum við búnar að spila leik og mótið er byrjað sem ætti að taka skrekkinn úr okkur og eins og ég sagði áðan þá er ég ótrúlega ánægð með frammistöðuna,“ sagði Hallbera í samtali við mbl.is.