Austurríki sigraði Norður-Írland 2:0 í fyrri leik dagsins í A-riðli Evrópumóts kvenna í knattspyrnu í Southampton.
Miðvörðurinn Katharina Schiechtl skoraði á 19. mínútu af stuttu færi eftir aukaspyrnu frá Sarah Puntigam, 1:0, og þannig var staðan í hálfleik.
Austurríki var sterkari aðilinn allan tímann og komst í 2:0 á 88. mínútu þegar Katharina Naschenweng bætti við marki. Þar með var sigurinn í höfn.
Austurríska liðið er þar með komið með 3 stig eins og Noregur og England en Norður-Írar eru án stiga og nokkuð ljóst að liðið fer ekki í átta liða úrslitin.
Austurríki tapaði 0:1 fyrir Englandi og Norður-Írland tapaði 1:4 fyrir Noregi í fyrstu umferð A-riðils en Noregur og England mætast klukkan 19.