„Ég er ótrúlega hamingjusamur fyrir hennar hönd,“ sagði Ólafur Pétursson, markmannsþjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is á æfingu liðsins í Crewe á Englandi í dag.
Sandra Sgurðardóttir, markvörður íslenska liðsins, lék sinn fyrsta keppnisleik á stórmóti í gær í 1:1-jafnteflinu gegn Belgíu í D-riðli Evrópuymótsins en hún er á sínu fjórða stórmóti með íslenska liðinu.
„Ég er mjög ánægður með hennar frammistöðu og þrátt fyrir að þetta hafi verið hennar fyrsti leikur á stórmóti þá er hún gríðarlega reynslumikill leikmaður.
Hún hefur spilað marga leiki á ferlinum og búin að standa sig mjög vel með landsliðinu líka á undanförnum árum.
Leikurinn í gær var því bara áframhald á hennar frammistöðu ef svo má segja,“ sagði Ólafur.
Næsti leikur íslenska liðsins á EM er gegn Ítalíu á fimmtudaginn kemur í Manchester.
„Ég klippi og skoða öll föst leikatriði, bæði sóknar- og varnarlega og fer svo yfir það með liðinu alltaf daginn fyrir leik. Við vinnum svo saman úr því þjálfarateymið hvernig við getum nýtt okkur þau sem skildi í sókninni og svo auðvitað hvernig sé best að verjast þeim hjá mótherjunum.“
Íslenska liðið var með mikla yfirburði í leiknum gegn Belgíu en tókst ekki að nýta þá sem skildi.
„Við fengum tíu hornspyrnur í gær gegn Belgunum en okkur tókst ekki að nýta þær sem skildi. Vonandi skorum við bara tvö mörk úr föstum leikatriðum gegn Ítalíu í staðinn,“ bætti Ólafur við í samtali við mbl.is.