Martin Sjögren hyggist ekki segja af sér eftir sem þjálfari norska landsliðsins í knattspyrnu þrátt fyrir 0:8 tap gegn Englandi á EM. Sjögren kemur frá Svíþjóð en tók við norska A-landsliði kvenna árið 2016.
Þetta var í þriðja skiptið sem Noregur hefur keppt gegn gestgjafa stórmóts undir stjórn Sjögrens og þetta var þriðji tapleikurinn. Fyrst var það á EM 2017 þegar þær töpuðu 0:1 gegn Hollandi, þá gegn Frakklandi á HM árið 2019 þegar þær töpuðu 1:2 og svo í gær í stærsta tapi í úrslitakeppni á Evrópumóti kvenna, 0:8.
Sjögren sagði í dag: „Ég er ekki sá sem gefst upp þó móti blási. Ég hef ekkert hugleitt að hætta eða draga mig í hlé frá þessu verkefni enda væri það lélegt.“
Sjögren er mikið gagnrýndur í norskum miðlum og mikið er rædd sú ákvörðun hans að gera ekki breytingar fyrr en í hálfleik en þá var liðið þegar sex mörkum undir.
Á blaðamannafundi eftir leik var hann spurður út í þessa ákvörðun „Við biðum eftir hléinu. Hvenær er rétti tíminn til að beita neyðarbremsunni? Við gerðum það í leikhléi en fengum á okkur tvö mörk til viðbótar. Óvíst er hvort að skiptingarnar hefði stöðvað blæðinguna í upphafi hefði ég gert þær fyrr“ sagði Svíinn.
Sjögren sagði að hann þurfti hlé til að gera breytingarnar. „Það er alltaf auðvelt að vera vitur eftir á. Við vorum í erfiðri stöðu eftir hálftíma. Við hefðum kannski átt að gera eitthvað þá en ég veit ekki hvort það hefði verið betra,“ sagði Sjögren.
Fyrrum landsliðskona Noregs, Solveig Gulbrandsen, sagði að Sjögren hefði „kastað leikmönnunum undir rútuna.“
Sérfræðingur NRK, Aleksander Schau lýsti leiknum sem „hryllingsmynd.“
„Verkfall“ var dómur knattspyrnusérfræðingsins Lars Tjærnås.
„Getur hann haldið áfram eftir þetta?“ spurði Trond Johannessen hjá VG
„Ég er hissa á því að Noregur hafi ekki breytt neinu fyrr. Englendingar spiluðu þær sundur og saman og þjálfarinn virtist lamaður“ sagði Jonas Eidevall, þjálfari kvennaliðs Arsenal.
Umræðan snýst helst um Sjögren og er mjög neikvæð í norskum fjölmiðlum en fyrirliði norska landsliðsins, Maren Mjelde, kom honum til varnar í dag. „Við berum mikið traust til Martin og höfum mikla trú á því sem við erum að gera. Við höfum unnið saman í mörg ár og allir bera ábyrgð á því sem gerist á vellinum.“