Þýskaland tryggði sér í kvöld sæti í átta liða úrslitum Evrópumóts kvenna í knattspyrnu og jafnframt sigur í B-riðlinum með því að sigra Spánverja á Brentford-vellinum í London, 2:0.
Þýskaland er með 6 stig og vinnur riðilinn því liðið vann bæði Spán og Danmörku sem eru með 3 stig í öðru og þriðja sæti og eiga fyrir höndum hreinan úrslitaleik um að komast í átta liða úrslit. Finnar eru án stiga og eru úr leik fyrir lokaumferðina.
Strax á þriðju mínútu gerði Sandra Panos afdrifarík mistök í marki Spánar þegar hún ætlaði að senda boltann á samherja í vítateignum. Hún sendi boltann beint á Klöru Bühl sem þakkaði fyrir sig og skoraði fyrir Þjóðverja, 1:0.
Spánverjar sóttu talsvert eftir markið en það voru hinsvegar Þjóðverjar sem skoruðu aftur á 36. mínútu þegar Alexandra Popp fyrirliði þeirra skallaði boltann í markið eftir hornspyrnu frá hægri, 2:0. Staðan var þannig í hálfleik.
Þýska liðið hélt sínum hlut af talsverðu öryggi í síðari hálfleiknum og þær spænsku náðu aldrei markinu sem þær þurftu til að eygja von um stig.