Svíar unnu 2:1 sigur á Svisslendingum í fyrri leik dagsins á Evrópumóti kvenna í knattspyrnu á Bramall Lane í Sheffield í dag.
Svíþjóð kemst í efsta sæti riðilsins með fjögur stig. Sviss er í því neðsta með eitt.
Á níundu mínútu virtist varnarmaður Svía Magdalena Eriksson brjóta á Sandy Maendley inn í teignum og Marta de Aza, dómari dæmdi víti. Hún fór þó tveimur mínútum síðar í VAR-skjáinn og dró dóminn til baka.
Svíar léku undir pari í fyrri hálfleiknum og þær svissnesku vörðust vel. Allt var í járnum er liðin gengu til búningsklefa, 0:0.
Fridolina Rolfö kom Svíum yfir á 53. mínútu þegar þær sænsku galopnuðu vörn Sviss. Kosovare Asllani sendi Rolfö í gegn sem setti boltann undir Gaëlle Thalmann í marki Sviss, 1:0.
Ramona Bachmann var þó ekki lengi að kvitta fyrir því hún jafnaði metin aðeins tveimur mínútum síðar, þá féll boltinn fyrir hana inn í vítateignum og hún lagði hann fallega í fjærhornið, 1:1.
Á 79. mínútu kom fékk Hanna Bennison boltann frá Rolfö fyrir utan vítateiginn og setti hann glæsilega framhjá Thalmann í marki Sviss, 2:1.
Rebecka Blomqvist hélt hún hefði komið Svíum í 3:1 á 88. mínútu er hún setti boltann framhjá Thalmann. Markið fór þó í gegnum myndbandsdóm og rangstæða dæmd.
Þær sænsku voru mun betri í síðari háfleik og sýndu sitt rétta andlit en fleiri urðu mörkin ekki og við stóð, 2:1 fyrir Svíþjóð sem mætir Portúgal í lokaleik riðilsins á sunnudaginn kemur. Sviss mætir Hollandi sama dag.