„Það var ótrúlega gott að fá Brynjar Atla í fangið strax eftir leikinn gegn Belgíu,“ sagði Dagný Brynjarsdóttir, miðjumaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, á blaðamannafundi íslenska liðsins á akademíuvellinum í Manchester í dag.
Dagný var að leika sinn 103. A-landsleik á ferlinum gegn Belgíu á sunnudaginn síðasta en hún eignaðist sitt fyrsta barn, soninn Brynjar Atla, í júní árið 2018.
Hún er samningsbundin West Ham á Englandi en hún er markahæsti leikmaðurinn í íslenska hópnum með 34 mörk.
„Þegar að ég var lítil þá dreymdi mig um að vera boltasækir á svona stórleikjum, eða að fá að leiða leikmann inn á völlinn,“ sagði Dagný.
„Þetta var eitthvað sem ég fékk aldrei að upplifa og það var því ótrúlega gaman að fá hann aðeins inn á völlinn og leyfa honum að upplifa þetta á sinn hátt.
Ég var í burtu frá honum í einhverjar tvær vikur og það var því ótrúlega gott að eyða smá tíma með honum á vellinum, þó það hafi ekki verið langur tími,“ bætti Dagný við.