„Ég er búin að komast að því að fjölmiðlafólk það borðar ekki,“ sagði fyrrverandi landsliðsfyrirliðinn Margrét Lára Viðarsdóttir í Dætrum Íslands, EM-hlaðvarpi mbl.is, þegar rætt var um matarvenjur íslensku fjölmiðlamannanna sem staddir eru á Evrópumóti kvenna í knattspyrnu á Englandi.
Í kringum 20 íslenskir fjölmiðlamenn fylgja íslenska kvennalandsliðinu hvert fótmál ef svo má segja en næsti leikur liðsins er gegn Ítalíu á morgun í Manchester.
„Matur og matartímar eru ekki í forgangi,“ sagði Margrét Lára
„Ég er farin að upplifa hálfgerðan næringarskort og ég er að vakna á nóttunni, banhungruð oft á tíðum,“ bætti Margrét Lára við í léttum tón.
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.