„Hin liðin í riðlinum horfa klárlega á okkur og hugsa að þar liggi þeirra stærstu möguleikar á að ná í úrslit,“ sagði fyrrverandi landsliðsfyrirliðinn Margrét Lára Viðarsdóttir í Dætrum Íslands, EM-hlaðvarpi mbl.is, þegar rætt var um riðil Íslands á Evrópumóti kvenna í knattspyrnu sem fram fer á Englandi.
Ísland mætir Ítalíu í afar þýðingarmiklum leik í Manchester í dag en Ísland þarf helst á sigri að halda til þess að komast áfram í 8-liða úrslit mótsins.
„Fólk hefur ekkert brjálaða trú á Íslandi og maður fann fyrir því þegar maður var sjálfur að spila í Þýskalandi, Svíþjóð og Danmörku til dæmis, “ sagði Margrét Lára.
„Það verður eflaust alltaf þannig, ekki nema þá að við verðum heimsmeistarar eða Ólympíumeistarar,“ sagði Margrét Lára í léttum tón.
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.