Mikil umræða skapaðist um það á samfélagsmiðlum eftir leik Belgíu og Íslands í D-riðli Evrópumóts kvenna í knattspyrnu í Manchester að Karólína Lea Vilhjálmsdóttir ætti mögulega að spila sem miðjumaður í íslenska liðinu.
Karólína Lea, sem er tvítug, lék sem vinstri kantmaður í leiknum þó hún og Sveindís Jane Jónsdóttir, hinn kantmaður íslenska liðsins, hafi reyndar verið duglegar að skipta um stöðu á meðan leik stóð.
Þorsteinn Halldórsson var spurður út í þessa umræðu á blaðamannafundi íslenska liðsins á akademíuvelli Manchester City og þá hvort hann hyggðist gera einhverjar breytingar fyrir leikinn mikilvæga gegn Ítalíu á morgun.
„Ég held að margir fjölmiðlar hérna inni hafi valið Karólínu sem mann leiksins,“ sagði Þorsteinn.
„Það svarar þessari spurningu,“ bætti Þorsteinn við.