„Við hefðum getað unnið þennan leik,“ sagði svekktur Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska landsliðsins, eftir 1:1 jafntefli gegn Ítalíu í öðrum leik Íslands á Evrópumóti kvenna í fótbolta í Manchester í dag.
„Ég veit það ekki maður, ég veit það ekki. Þetta var erfiður leikur, þær lágu á okkur en heilt yfir sköpuðum við okkur ágætis færi til að skora líka. Spilalega séð vorum við ekki að spila okkar besta leik, við vörðumst ágætlega á köflum en vorum í smá brasi í uppspilinu.
Ítalir gerðu töluverðar breytingar frá leiknum gegn Frakklandi bæði taktístlega séð og á leikmönnum. Það ætti ekki að koma okkur á óvart nema það að þær spiluðu mun aftar en maður bjóst við með varnarlínuna. Þær hafa aldrei gert það áður sama hver mótherjinn er. Við náðum ekki að leysa það nógu vel en við hefðum alveg getað unnið þennan leik.
Við ætluðum að þrýsta þær aftar ef þær yrðu hátt með línuna og ef svæðin mynduðust af því þær höfðu verið hátt með línuna gegn Frakklandi og ekki með svaka pressu á boltanum. Svo lágu þær aftarlega með línuna þannig það var ekki hægt að spila mikið bakvið . Það voru að myndast pláss á milli en við vorum ekki að finna þau og vorum of fljót að rjúka af stað og létum þær stýra því hvert boltinn fór.“
En þetta var draumabyrjun á leiknum?
„Já við fengum góða byrjun og góða hluti að fara inn í hálfleikinn með 1:0 og var það fínt. Manni fannst engin svaka hætta í fyrri hálfleik svo kom kafli í síðari hálfleik þar sem þær lágu á okkur og náðu að opna okkur og þær voru líklegar en við stóðumst það. Og svo kemur þetta mark sem var smá klaufagangur í kringum.“
Riðilinn er en galopin?
„Ef að frakkar vinna Belgíu á eftir þá er þetta ennþá í okkar höndum, það er ekki flóknara en það. Ég sagði það í viðtali fyrir leik að við vildum hafa það þannig að við vildum stýra því hvort við komumst áfram eða ekki. Ef Frakkar vinna á eftir þá er hrein úrslitaleikur á mánudaginn og það er bara næsti leikur áfram gakk og vinna Frakka.“
Þú tókst á móti Karólínu þegar hún fór af velli svekkt, viltu deila því hvað fór ykkar á milli?
„Ég held að ég hafi ekki sagt neitt við hana ég bara brosti til hennar og tók utan um hana, held að það hafi ekki verið flóknara en það,“ sagði Þorsteinn að lokum í samtali við RÚV eftir leik.