„Stemningin er virkilega góð en stressið er aðeins byrjað að læðast að manni,“ sagði Valgerður Ýr Þorsteinsdóttir, dóttir Þorsteins Halldórssonar landsliðsþjálfara Íslands, í samtali við mbl.is á Fanzone stuðningsmanna íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu í Piccadilly Gardens í Manchester í dag.
Valgerður er stödd á Englandi ásamt unnusta sínum, Leó Snæ Péturssyni, dóttur þeirra Sylvíu Líf Leósdóttur og öðrum meðlimum úr stórfjölskyldu Þorsteins.
Bæði Valgerður og Leó Snær eru mikið handboltafólk en Valgerður er samningsbundin HK í efstu deild og Leó Snær spilar með Stjörnunni í efstu deild.
„Það er miklu erfiðara að sitja upp í stúku, frekar en að spila leikinn. Þetta er bara allt annað dæmi. Ég er alltaf að reyna hafa einhver áhrif á hann en það gengur ekki neitt,“ sagði Leó Snær í léttum tón.
Það hefur verið mikið að gera hjá Þorsteini síðan hann mætti með íslenska liðinu til Englands á miðvikudaginn í síðustu viku en hann fékk að eyða tíma með fjölskyldu sinni á þriðjudaginn.
„Hann kom að hitta okkur í fyrradag en hann var eiginlega ekki á staðnum. Hausinn á honum var á allt öðrum stað en það var gott að hitta á hann og fá að eyða smá tíma með honum.
Stelpan dró hann beint úr á róló og vonandi náði hún aðeins að dreifa huganum hjá honum en þau eru ótrúlega góð saman. Annars erum við ótrúlega stolt af honum og með stjörnur í augunum, bæði yfir honum og öllu liðinu auðvitað,“ bætti Valgerður við.