„Þetta var virkilega súrt,“ sagði Guðrún Arnardóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir 1:1-jafntefli gegn Ítalíu í D-riðli Evrópumótsins á akademíuvelli Manchester City í Manchester í kvöld.
„Ítalarnir þrýstu vel á okkur en við ætluðum okkur sigur hérna í dag og þess vegna er maður ekkert sérstaklega sáttur á þessari stundu. Það var gott að komast yfir svona snemma og við gátum þar af leiðandi tekið okkar góðan tíma í allar okkar aðgerðir.
Við náðum líka að pirra þær en okkur gekk hins vegar illa að halda í boltann. Við vorum að koma boltanum ofarlega á völlinn en okkur gekk illa að halda honum þar og þess vegna vorum við aldrei með stjórn á leiknum,“ sagði Guðrún
Ísland þarf sigur í lokaleik sínum gegn Frakklandi til þess að komast áfram í 8-liða úrslitin.
„Frakkarnir eru með gott lið og þeir eiga að vera besta liðið í riðlinum. Þetta er samt bara fótbolti og það er allt hægt í fótbolta. Við munum mæta inn í þennan Frakkaleik af miklum krafti því við ætlum okkur áfram í 8-liða úrslitin,“ bætti Guðrún við.