Ísland mætir Ítalíu á Evrópumóti kvenna í knattspyrnu í dag. Ef ítalska liðið tapar leiknum á það enga möguleika á að komast upp úr riðlinum en hvort sem íslenska liðið tapar eða sigrar á það möguleika á að komast áfram.
Ítalía mætti Frakklandi í fyrsta leik liðsins og tapaði leiknum stórt en hann fór 5:1 fyrir Frakka. Frakkland er sterkt lið sem flestir spáðu upp úr D-riðlinum sem Ísland er í ásamt Ítalíu, Belgíu og Frakklandi. Ísland gerði 1:1 jafntefli gegn Belgíu. Leikur Íslands og Ítalíu verður spilaður á akademíuvelli Manchester City líkt og fyrsti leikur Íslands.
„Við vissum að sigur eða jafnvel jafntefli við Frakkland væri erfitt svo einbeitingin er á næstu tveim leikjum. Við svöruðum Frökkunum mun betur í seinni hálfleik. Við þurfum að skilja hvað fór úrskeiðis, læra af mistökunum, leggja hart af okkur og horfa fram á veginn, næstu tveir leikir skipta sköpum,“ segir Milena Bertolini, þjálfari ítalska liðsins í samtali við blaðamann UEFA. Ef þær tapa þessum leik á Ítalía á enga möguleika á að koma sér upp sama hver niðurstaðan væri í síðasta leik þeirra.
Ísland og Ítalía hafa ekki mæst í mótsleik síðan í undankeppni HM árið 2003 en liðin spiluðu tvo vináttulandsleiki á síðasta ári. Þetta voru tveir leikir á fjórum dögum og voru niðurstöður leikjanna 1:0 fyrir Ítalíu í fyrri leiknum og 1:1 í þeim seinni.
Í fyrri leik liðanna árið 2021 skoraði Arianna Caruso sigurmarkið. Hún er í ítalska hópnum og byrjaði inn á gegn Frakklandi. Valentina Giacinti er einnig í ítalska hópnum en hún skoraði mark Ítalíu í seinni leiknum. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði jöfnunarmark Íslands á 40. mínútu.
Arianna Caruso sem skoraði annað mark Ítalíu gegn Íslandi hefur skorað þrjú mörk í síðustu sex leikjum hennar í undankeppni EM. Caruso er 22 ára miðjumaður og spilar með Juventus og á yfir 100 leiki fyrir félagið en fyrirliði Íslands, Sara Björk Gunnarsdóttir, var að skrifa undir þar á dögunum.