„Þetta var ógeðslega svekkjandi,“ sagði Agla María Albertsdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir 1:1-jafntefli gegn Ítalíu í D-riðli Evrópumótsins á akademíuvelli Manchester City í Manchester í kvöld.
„Við fengum tvö frábær færi til þess að skora sem gerir þetta mjög súrt. Við fengum mjög gott færi um miðjan seinni hálfleikinn sem fer forgörðum og svo skora þær strax í næstu sókn sem var erfitt að kyngja.
Það var aðeins þungt yfir okkur inn í klefa eftir leik en þetta er ennþá galopið og við reynum að hanga á því. Ítalirnir eru með hörkulið og allt það en ef við hefðum nýtt okkur færin þá hefði leikurinn getað spilast allt öðruvísi,“ sagði Agla María.
Agla María kom inn á sem varamaður á 57. mínútu og átti góða innkomu.
„Þegar Karólína kom okkur yfir þá var allt að vinna með okkur og stemningin var stórkostleg í stúkunni. Við fundum vel fyrir því að það voru allir með okkur í liði. Núna þurfum við bara að vinna Frakkana en það verður hörkuleikur enda eru þær með eitt besta lið í heimi,“ bætti Agla María við í samtali við mbl.is.