Austurríki er komið áfram í 8-liða úrslitin á Evrópumóti kvenna í knattspyrnu eftir 1:0 sigur á Noregi í Brighton í kvöld.
Fyrir leikinn voru bæði lönd með 3 stig eftir tvo leiki af þremur, en Austurríki var ofar á markatölu. Noregur þurfti því sigur til þess að komast áfram.
Mark leiksins kom á 37. mínútu. Þá vippaði Verena Hanshaw boltanum beint á kollinn á Nicole Billa sem skallaði hann glæsilega í netið, 1:0 og þær austurrísku komnar í vænlega stöðu.
Austurríki var betri aðilinn í leiknum og fer því verðskuldað í 8 liða úrslitin ásamt Englandi. Þar leikur Austurríki við Þýskaland en England mætir annaðhvort Spáni eða Danmörku.
Englendingar unnu 5:0 sigur á Norður-Írlandi í hinum leik kvöldsins í Southampton. Frank Kirby kom þeim ensku yfir á 41. mínútu. Beth Mead skoraði svo annað mark Englands á lokamínútu fyrri hálfleiksins. Alessia Russo kom liðinu svo bæði í 3 og 4:0 á 48. og 53. mínútu. Kelsie Burrows varð fyrir því óláni að setja boltann í sitt eigið net á 76. mínútu, 5:0. Fleiri urður mörkin ekki og 5:0 sigur Englendinga ljós.
Lokastaða riðilsins:
England - 9 stig
Austurríki - 6 stig
Noregur - 3 stig
Norður-Írland - 0 stig