Tveir leikir eru á dagskrá á Evrópumóti kvenna í knattspyrnu í B-riðli í dag. Annars vegar mætast Danmörk og Spánn í úrslitaeinvígi um hvort liðið fer upp úr riðlinum og hins vegar Þýskaland og Finnland. Þýskaland hefur nú þegar tryggt sig áfram en Finnland á enga möguleika á því.
Þýskaland tryggði sig upp úr riðlinum með 2:0 sigri á Spáni og 4:0 sigri á Danmörku. Bæði Spánn og Danmörk unnu svo Finnland sem þýðir að liðin tvö sem mætast á eftir standa jöfn að stigum fyrir leikinn.
Spánn er hins vegar með betri markatölu svo ef leikurinn endar jafn fer Spánn áfram. Spánn er einnig talið líklegri að vinna leikinn en þjálfari Dana, Lars Söndergaard, sagði að „við myndum gefa hægri og vinstri handlegginn fyrir sigur.“
Spánn er með sterkt lið en missti einn besta leikmann liðsins, Alexiu Putellas, rétt fyrir mót og verður hún frá út árið en hún sleit krossband í hné.
Liðið sem endar í öðru sæti B-riðils mun mæta Englandi í 8-liða úrslitum en þær hafa verið gríðarlega öflugar á mótinu og unnu meðal annars 8:0 sigur á Noregi.
Leikirnir hefjast báðir klukkan 19.