„Þetta er ótrúlega svekkjandi en á sama tíma er maður ótrúlega stoltur,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir 1:1-jafntefli liðsins gegn Frakklandi í lokaleik sínum í D-riðli Evrópumótsins á New York-vellinum í Rotherham í kvöld.
„Frammistaða liðsins var frábær, gegn algjörlega geggjuðu liði, og leikplanið gekk algjörlega upp ef svo má segja. Við hefðum alveg getað tekið öll þrjú stigin og það er ekki oft sem maður getur sagt það gegn liði eins og Frakklandi.
Síðasta stórmót fór svo sannarlega í reynslubankann en eftr það fór maður út úr mótinu og hugsaði bara við áttum ekkert skilið að fara upp úr riðlinum. Núna er tilfinningin allt öðruvísi og þetta var einfaldlega bara stöngin út ef svo má segja. Við getum borið höfuð hátt eftir þessa frammistöðu hérna á Englandi,“ sagði Sara.
Íslendingar hafa fjölmennt til Englands og stutt þétt við bakið á liðinu á Evrópumótinu.
„Ég verð bara meyr þegar ég tala um þennan stuðning. Í hverjum einasta leik var stúkan blá. Það er ótrúleg upplifun að sjá fjölskyldurnar okkar í stúkunni og allt þetta fólk sem er ferðast að ferðast frá Íslandi til að koma að styðja okkur. Mér leið eins og ég væri á heimavelli allt mótið sem var algjörlega magnað,“ bætti Sara Björk við.