„Þá hefst lota númer þrjú,“ sagði plötusnúðurinn Dóra Júlía Agnarsdóttir í samtali við mbl.is á stuðningsmannasvæði íslenska liðsins í Rotherham á Englandi í dag.
Dóra Júlía hefur séð um að hita upp stuðningsmenn íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu í lokakeppni Evrópumótsins sem nú stendur yfir.
Fyrstu tveir leikir íslenska liðsins, gegn Belgíu og Ítalíu, fóru fram í Manchester en sá þriðji, gegn Frökkum í kvöld, fer fram á New York-vellinum í Rotherham.
„Stemningin er virkilega góð, þrátt fyrir þennan svakalega hita. Það þarf því smá metnað til þess að mæta hingað og dansa og hita sig aðeins upp fyrir leikinn. Ég er hérna til þess að búa til góða stemningu og peppa fólkið sem er svo að fara peppa landsliðskonurnar okkar áfram á vellinum,“ sagði Dóra Júlía.
Hitinn í Rotherham í dag fór rétt yfir 37° stiga hita en Íslendingar létu það ekki stoppa sig í því að koma sér í gang fyrir leikinn í kvöld.
„Maður hefur verið meira í því að minna fólk á að klæða sig í úlpur heima á Íslandi þannig að þetta er aðeins öðruvísi núna. Það eru held ég flestir meðvitaðir um það hversu mikilvægt það er að drekka vatn í svona hita en ég tek það nú samt á mig að minna fólk reglulega á það þegar ég er á sviðinu.“
Dóra Júlía hefur verið á báðum leikjum Íslands á mótinu og verður á leiknum í kvöld gegn Frakklandi.
„Þetta er búið að vera ótrúlega gaman hérna og ég var bókstaflega að sturlast úr spennu á Ítalíuleiknum á fimmtudaginn. Ég er ekki frá því að þessi leikur hafi verið ein spennuþrungnasta upplifun lífs míns. Stelpurnar eru búnar að standa sig stórkostlega og ég gæti ekki verið stoltari af þeim,“ bætti Dóra Júlía við í samtali við mbl.is.