„Við lögðum allt í þetta,“ sagði Sveindís Jane Jónsdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir 1:1-jafntefli liðsins gegn Frakklandi í lokaleik sínum í D-riðli Evrópumótsins á New York-vellinum í Rotherham í gær.
„Það er búið að vera ótrúlega gaman að vera hérna og ég er þakklát fyrir spilatímann og hafa fengið að byrja alla leikina. Þetta er búið að vera virkilega skemmtilegt en á sama tíma er ótrúlega pirrandi að hafa ekki komist áfram í 8-liða úrslitin.
Ég er hrikalega stolt af liðinu, við fórum taplausar í gegnum riðlakeppnina og það er klárlega nokkuð sem við tökum með okkur inn í næsta stórmót sem verður vonandi HM 2023. Þetta var stöngin út hjá okkur á þessu móti, sem er auðvitað virkilega svekkjandi,“ sagði Sveindís í samtali við mbl.is.