„Ég held í raun bara með góðum leik,“ sagði Glódís Perla Viggósdóttir um úrslitaleikinn á EM kvenna í knattspyrnu sem fer fram í dag. Mbl.is fékk sex landsliðskonur til að spá um leikinn og segja sína skoðun um liðin og leikmenn.
England og Þýskaland mætast í úrslitaleik á Evrópumóti kvenna í knattspyrnu í dag. Leikurinn fer fram á þjóðarleikvangi Englendinga, Wembley, og uppselt er á hann, 87.200 áhorfendur verða á vellinum, en það hefur nú þegar verið slegið áhorfendamet á EM kvenna og það rækilega.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, Sandra Sigurðardóttir, Agla María Albertsdóttir, Guðrún Arnardóttir og Glódís Perla Viggósdóttir voru allar leikmenn íslenska landsliðsins þegar liðið spilaði á EM í sumar þegar þær töpuðu ekki leik á mótinu og stóðu sig með prýði.
Stelpurnar fengu fjórar spurningar um liðin og þess má geta að tvær af þeim sex spila með þýska stórliðinu Bayern München líkt og margar stelpur í þýska liðinu. Það eru þær Karólína Lea og Glódís Perla. Karólínu fannst ekki annað í boði en að halda því með Þýskalandi en Glódís sagðist halda „aðeins meira“ með þeim út af stelpunum en vonast mest eftir jöfnum leik.
Hvaða liði heldur þú með og hvers vegna?
Karólína Lea: Ég held með Þýskalandi; þar sem ég spila með mörgum af þessum stelpum er bara ekki annað í boði.
Áslaug Munda: Ég held með Englandi. Mér finnst þær spila skemmtilega saman og virðist vera mikil stemning í liðinu. Ef þær spila sinn besta leik þá held ég að þær séu sigurstranglegri. Svo held ég að það að þær eru á heimavelli muni gefa þeim ennþá meiri kraft.
Sandra Sigurðardóttir: Mér hefur fundist gaman að fylgjast bæði með Englandi og Þýskalandi í þessu móti, en hrífst af þýska liðinu. Þær eru bara með svo geggjaðar fótboltakonur í þessu liði og áræðnar í því sem þær eru að gera.
Agla María: Held með Englandi þar sem ég held að stemningin verði rosaleg ef þær vinna þar sem þær eru á heimavelli. Finnst þær á sama tíma líka spilað langskemmtilegasta boltann á mótinu og svo er það líka fín tilbreyting frá því að Þjóðverjarnir vinni enn og aftur.
Guðrún Arnardóttir: Held ég verði að segja England. Bæði lið búin að líta mjög vel út en Þýskaland hefur unnið svo oft þannig að það væri smá gaman ef Englendingarnir tækju þetta á heimavelli!
Glódís Perla: Ég held í raun bara með góðum leik. Þetta eru tvö lið með marga heimsklassaleikmenn þannig að ég vona að þetta verði hraður og skemmtilegur úrslitaleikur. Hálft þýska liðið er með mér í Bayern þannig að ætli ég haldi ekki aðeins meira með þeim. Annars finnst mér England með mjög skemmtilegt lið líka.
Ef Þýskaland vinnur verður það í níunda sinn sem þær vinna EM en ef England vinnur verður það í fyrsta sinn. Þó að Karólína Lea og Glódís Perla haldi með Þýskalandi spáðu þær báðar að liðsfélagar þeirra þar myndu tapa leiknum og voru ekki einar um þá spá:
Hvernig heldur þú að leikurinn endi?
Karólína Lea: Það kom mér mikið á óvart hvað þær þýsku eru búnar að vera geggjaðar því þær náðu ekki að sýna sínar bestu hliðar fyrir mót. Ég vona innilega að Þýskaland vinni en held samt sem áður að England vinni 2:1 eftir framlengingu.
Áslaug Munda: Ég held að þetta verði frekar jafn leikur, en þó markaleikur. Þýskaland verður sterkt fyrir og spilar meira „physical“ bolta, en hraðinn, tæknin og stemningin í enska liðinu munu sigla sigrinum heim. Ég spái Englandi 3:2-sigri.
Sandra Sigurðardóttir: Ég held að þetta verði hörkuleikur, bæði lið eru á siglingu og spila vel og hafa verið að ná úrslitum. Finnst Þýskaland betra en held samt að England taki þetta, svo mikið „móment“ með þeim og stemning og þær fullar af sjálfstrausti.
Agla María: Ég held að England vinni leikinn 2:1. Kirby er stórhættulegur og mjög skapandi leikmaður og ég held að hún leggi upp fyrsta markið á Mead. Ég held að Þjóðverjarnir jafni síðan en Englendingar svari með marki frá Russo sem er þá enn og aftur nýkomin inn á.
Guðrún Arnardóttir: Held þetta fari í framlengingu en endi 2:1 fyrir England! Heimavöllurinn gefur!
Glódís Perla: Ég held að leikurinn endi 2:2 eftir framlengingu og England vinni í vítaspyrnukeppni.
Markið sem Anja Mittag skoraði sem tryggði Þýskalandi sigurinn á EM árið 2013 þegar þær unnu Noreg 1:0.
Hver er uppáhaldsleikmaðurinn þinn á mótinu?
Karólína Lea: Á öllu mótinu eru alltof margar en í þessum tveimur liðum eru það Klara Bühl og Beth Mead. Frábærir leikmenn.
Áslaug Munda: Uppáhaldsleikmaðurinn minn á mótinu er Fran Kirby í enska liðinu. Kirby hefur gengið í gegnum margt á sinni lífsleið og var hreinlega ekki víst að hún myndi ná mótinu vegna óútskýrða veikinda hjá henni. Henni tókst að vera klár fyrir EM og hefur staðið sig virkilega vel á mótinu en hingað til hefur hún skorað tvö mörk og lagt upp þrjú ásamt því að vera síógnandi fram á við.
Sandra Sigurðardóttir: Finnst Lena Oberdorf í þýska liðinu mögnuð, og svo að fylgjast með kraftinum og klókindunum í Popp.
Agla María: Kirby er uppáhalds í þessu enska liði, geggjuð að finna sér svæði og búa til færi fyrir liðsfélaga sína. Mead hefur samt verið best á þessu móti að mínu mati, búin að skora og leggja upp samtals 11 á mótinu sem er rosaleg tölfræði.
Guðrún Arnardóttir: Mjög erfið spurning en það er gaman að horfa á Russo spila.
Glódís Perla: Held ég verð að segja Russo í Englandi. Búin að vera algjör „supersub“ allt mótið.
Ofur-varamaðurinn eða „supersub“ hún Alessia Russo sem Glódís Perla nefndi er með fjögur mörk á mótinu og hefur skorað þau öll eftir að hafa komið inn á sem varamaður. Eins og staðan er núna er ein úr hvoru liði með sex mörk á mótinu og standa jafnar sem markahæstu leikmenn mótsins; hin enska Beth Mead og hin þýska Alexandra Popp.
Hvort verður Popp eða Mead markahæst á mótinu?
Karólína Lea: Mead klárar þennan titil í úrslitaleiknum og siglir þessu heim fyrir Englendinga.
Áslaug Munda: Mead. Mér finnst Popp virkilega öflug og það virðist vera erfitt að stöðva hana en Mead er búin að vera meira skapandi og hefur komið að fleiri mörkum á mótinu svo ég held að hún taki þetta.
Sandra Sigurðardóttir: Held að Mead taki þetta og setji sigurmarkið í þessum leik.
Agla María: Held að Mead skori í úrslitaleiknum og Popp ekki og endi þar með markahæst.
Guðrún Arnardóttir: Ég held að þótt Englendingar vinni þá taki Popp gullskóinn. Hún skorar mark Þýskalands en Mead skorar ekki.
Glódís Perla: Ég held að þær skori báðar í úrslitaleiknum og endi jafnar.
Leikurinn hefst klukkan 16.00 að íslenskum tíma.