Slóvakía hafði betur gegn Belgíu, 1:0, í mögnuðum sigri í fyrstu umferðinni í E-riðli Evrópumóts karla í knattspyrnu í Frankfurt í Þýskalandi í dag.
Rúmenía vann Úkraínu, 3:0, í hinum leik E-riðilsins og er á toppnum með þrjú stig líkt og Slóvakía í öðru.
Sigurmarkið skoraði Ivan Schranz strax á sjöundu mínútu leiksins.
Belgía mætir næst Rúmeníu á laugardaginn en Slóvakía mætir Úkraínu á föstudaginn.
Romelu Lukaku fékk frábært færi strax á þriðju mínútu leiksins. Þá átti Jérémy Doku magnaðan sprett upp vallarhelming Slóvakíu, gaf á Kevin De Bruyne og af honum barst boltinn til Lukaku sem reyndi skot af stuttu færi en Martin Dubravka varði vel.
Lukaku var sloppinn í gegn tveimur mínútum síðar en Dubravka sá aftur við honum.
Ivan Schranz kom Slóvakíu óvænt yfir á 7. mínútu leiksins. Þá átti Doku hræðilega sendingu á Zeno Debast sem Scharnz komst inn í.
Schranz kom boltanum snyrtilega á Juraj Kucka sem reyndi skot en Timothy Casteels varði. Boltinn barst síðan til Schranz sem skoraði og kom Slóvökum yfir.
Dubravka missti boltann frá sér á 21. mínútu og hann barst til Leandro Trossard sem var með markið opið fyrir framan sig.
Trossard setti boltann hins vegar yfir markið.
Lukas Haraslin fékk upplagt skotfæri á 40. mínútu þegar fyrirgjöf Juraj Kucka fann hann inn í teignum.
Haraslin reyndi viðstöðulaust skot en Casteels varði glæsilega.
Lukaku fékk enn eitt dauðfærið á 42. mínútu eftir sendingu frá Yannick Carrasco en framherjinn missti boltann frá sér.
Lukaku kom boltanum í netið á 56. mínútu þegar hann fékk boltann frá Amadou Onana og potaði honum inn.
Belgar fögnuðu markinu vel en eftir athugun í VAR-sjánni mátti sjá að Lukaku var rangstæður þegar hann fékk boltann og markið dæmt af.
Varamaðurinn Johan Bakayoko fékk dauðafæri þegar boltinn barst til hans á 62. mínútu og markvörðurinn af línunni. Hann ætlaði að senda boltann í netið en David Hancko bjargaði á línu og lá sárþjáður eftir.
Lukaku skoraði aftur á 86. mínútu en aftur var dæmt markið af. Þá keyrði varamaðurinn Lois Openda inn á teiginn, gaf sendingu á Lukaku sem smellti honum í netið.
Í aðdraganda marksins fékk Openda hins vegar boltann í höndina og eftir athugun í VAR-sjánni var markið dæmt af.
Belgar reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin en svo var ekki og sigur Slóvakíu var staðreynd.
Byrjunarliðin:
Belgía: (4-3-3)
Mark: Koen Casteels
Vörn: Timothy Castagne, Wout Faes, Zeno Debast, Yannick Carrasco (Dodi Lukebakio 84.)
Miðja: Orel Mangala (Johan Bakayoko 58.), Kevin De Bruyne, Amadou Onana
Sókn: Leandro Trossard (Youri Tielemans 74.), Romelu Lukaku, Jérémy Doku (Lois Openda 84.)
Slóvakía: (4-3-3)
Mark: Martin Dubravka
Vörn: Peter Pekarik, Denis Vavro, Milan Skriniar, David Hancko
Miðja: Juraj Kucka, Stanislav Lobotka, Ondrej Duda (Adam Obert 90+5)
Sókn: Ivan Schranz (David Duris 81.), Robert Bozenik (David Strelec 70.), Lukas Haraslin (Tomas Suslov 70.)