Rúmenía vann Úkraínu 3:0 í fyrsta leiknum í E-riðli Evrópumóts karla í knattspyrnu á velli Bayern í München.
Belgía og Slóvakía eru einnig í E-riðlinum og mætast síðar í dag.
Leikurinn fór hægt af stað og liðin skiptust á hálffærum og voru með góðan varnarleik þar til á 29. mínútu. Nicolae Stanciu kom Rúmeníu yfir þegar Andriy Lunin fékk erfiða sendingu til baka frá varnarmanni sem var undir pressu.
Lunin sendi boltann beint á mótherja og Dennis Man sendi boltann á Stanciu sem kláraði færið glæsilega í þverslánna og inn. Óverjandi fyrir Lunin sem átti frábært tímabil með Real Madríd fyrir mótið.
Dragusin var nálægt því að skora sjálfsmark sem hefði jafnað leikinn á 36. mínútu þegar hann skallaði fyrirgjöf Mykhaylo Mudryk rétt yfir.
Rúmenía hélt svo áfram að sækja en Man skaut rétt framhjá og boltinn fór svo í slánna eftir hornspyrnu.
Annað mark Rúmena skoraði Razvan Marin á 53. mínútu. Rúmenar sóttu hratt og boltinn fór á Man sem ætlaði sjálfur í skot en missti boltann frá sér. Þá var Marin réttur maður á réttum stað og negldi boltanum í markið undir Lenin.
Aðeins fjórum mínútum síðar skoraði Dragus þriðja mark Rúmeníu eftir vel útfærða hornspyrnu. Þeir tóku hana stutt og Man bar boltann inn á teiginn, klobbaði varnarmann með sendingu á Dragus sem potaði boltanum í markið.
Á lokamínútum leiksins sótti Úkraína grimmt. Mudryk klúðraði flottu færi þegar hann skaut yfir á 84. mínútu, á 89. mínútu var Puscal nálægt því að skora sjálfsmark eftir hornspyrnu frá Malinovskyi og á annarri mínútu uppbótartímans skaut Yaremchuk ofan á þverslánna. Allt kom fyrir ekkert og Rúmenía hélt hreinu.
Byrjunarliðin:
Rúmenía (4-3-3):
Mark: Florin Nita
Vörn: Andrei Ratiu, Andrei Bruca, Ratu Dragusin, Nicusor Bancu
Miðja: Razvan Marin, Marius Marin (Adrian Rus 75.), Nicolae Stanciu
Sókn: Dennis Man (Ianis Hagi 62.), Denis Dragus (George Puscas 75.), Florien Coman (Valentin Mihaila 62.)
Úkraína (4-3-3):
Mark: Andriy Lunin
Vörn: Oleksandr Zinchenko, Mykola Matviyenko, Illia Zabarnyi, Yukhym Konoplia (Oleksandr Tymchyk 72.)
Miðja: Mykola Shaparenko (Roman Yaremchuk 62.), Georgiy Sudakov (Ruslan Malinovsky 83.), Taras Stepanenko (Volodymyr Brazhko 62.)
Sókn: Mykhaylo Mudryk, Artem Dovbyk, Viktor Tsigankov (Andriy Yarmolenko 62.)